RICHARD Holbrooke, sendimaður Bandaríkjastjórnar á Balkanskaga, varaði í gær stríðandi fylkingar í Kosovo við því að þau væru að "leika sér með dýnamít" ef þau héldu áfram þeim átökum sem brotist hafa út undanfarna daga. Sagði Holbrooke á blaðamannafundi í Prístína í gær að átökin myndu ekki koma í veg fyrir friðarumleitanir erlendra ríkja í Kosovo.
Richard Holbrooke kominn aftur til Kosovo

Óttast að endurnýjuð

átök ógni vopnahléi

Prístína, Kusnin, Madríd. Reuters.

RICHARD Holbrooke, sendimaður Bandaríkjastjórnar á Balkanskaga, varaði í gær stríðandi fylkingar í Kosovo við því að þau væru að "leika sér með dýnamít" ef þau héldu áfram þeim átökum sem brotist hafa út undanfarna daga. Sagði Holbrooke á blaðamannafundi í Prístína í gær að átökin myndu ekki koma í veg fyrir friðarumleitanir erlendra ríkja í Kosovo.

Þrjátíu og sjö eru sagðir hafa fallið í tvennum ótengdum róstum í Kosovo á mánudag, þar af þrjátíu og einn liðsmaður Frelsishers Kosovo (KLA) í átökum við serbneska hermenn við landamæri Kosovo og Albaníu. Kom Holbrooke í gær til Júgóslavíu til að reyna að blása lífi í friðarumleitanir í Kosovo.

Javier Solana, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO), fordæmdi einnig atburði mánudagsins en hann er staddur í Madríd á ráðstefnu um gang friðarumleitana í Bosníu. Kvaðst hann óttast um öryggi erlendra eftirlitsmanna sem staddir eru í Kosovo. Sagði Solana að andstætt því sem Milosevic hefur haldið fram þá hafi NATO samþykki öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna fyrir því að svokallað brottflutningsherlið, sem hefur bækistöðvar í Makedóníu, komi eftirlitsmönnunum til bjargar sé lífi þeirra ógnað. Í New York varaði Kofi Annan, framkvæmdastjóri SÞ, við því að stríð gæti brotist út í Kosovo á nýjan leik og lét hafa eftir sér að menn "hefðu alla ástæðu til að óttast hið versta á nýju ári."

Þótt Kosovo sé ekki formlega á dagskrá áðurnefndrar ráðstefnu í Madríd settu fregnir um átök í Kosovo engu að síður skugga á upphaf hennar, en þetta er mesta mannfall á einum degi frá því að KLA lýsti yfir vopnahléi í október og Milosevic samþykkti að draga herlið sitt frá Kosovo.

Sex ungmenni myrt á kaffihúsi

Eftirlitsmennirnir segja að Kosovo- Albanarnir 31 hafi fallið þegar serbneski herinn kom um hundrað og fjörutíu manna hópi skæruliða KLA í opna skjöldu í þann mund sem þeir hugðust smygla vopnum inn í Kosovo.

Auk KLA-mannanna myrtu byssumenn sex serbnesk ungmenn og særðu þrjú önnur á kaffihúsi í Pec í vestur-Kosovo. Fengu vestrænir eftirlitsmenn í gær að kenna á reiði heimamanna vegna þessa atburðar, köstuðu nokkur ungmenni grjóti að eftirlitsmönnunum og farið var fram á að þeir yfirgæfu bæinn, sem þeir og gerðu.