ERNI hefur alla tíð liðið vel í vatni. hann var frekar stirður til gangs sem barn en um leið og komið var í laugina var hann eins og selurinn, hann hefur alltaf haft mjög gott flot," segir Örn Ólafsson, faðir Arnar Arnarsonar, Evrópumeistara í 200 m baksundi í 25 metra laug. "Örn var tíu eða ellefu mánaða þegar ég og móðir hans fórum fyrst með hann í sund.
Hefur alltaf stefnt í fremstu röð
Evrópumeistarinn Örn Arnarson var á þriðja ári þegar hann sleppti kútnum í lauginni og hefur síðan verið fremstur jafnaldra sinna. Það var síðan árið 1995 sem hann fyrst fór að vekja verulega athygli. Ívar Benediktsson hefur litið yfir feril Arnar og talað við föður hans og nafna.
ERNI hefur alla tíð liðið vel í vatni. hann var frekar stirður til gangs sem barn en um leið og komið var í laugina var hann eins og selurinn, hann hefur alltaf haft mjög gott flot," segir Örn Ólafsson, faðir Arnar Arnarsonar, Evrópumeistara í 200 m baksundi í 25 metra laug. "Örn var tíu eða ellefu mánaða þegar ég og móðir hans fórum fyrst með hann í sund. Það var ekki algengt á þessum árum að ungbörn væru í sundi og því þótti mörgum skrýtið þegar við mættum með drenginn í innilaugina okkar í Hafnarfirði. Allt hefur þetta breyst nú og þykir ekkert nema eðlilegt að fara með nokurra mánaða gömul börn í sund."
Örn er sonur hjónana Arnar Ólafssonar og Kristínar Jensdóttur sem búsett eru í Hafnarfirði. Hann er annað barn foreldra sinna en eldri er Ólöf og yngri er Erla. Erla æfir með SH í Hafnarfirði og Ólöf gerði það fram á unglingsár að hún veiktist og varð að hætta. Afi Evrópumeistarans í föðurætt er Ólafur Guðmundsson, sem á sinni tíð var fremsti sundmaður þjóðarinnar og keppnismaður fyrir ÍR. "Afinn er mjög hrærður yfir árangri drengsins sem von er," sagði Örn um viðbrögð föður sína við fréttunum frá Sheffield. Kona Ólafs er Unnur Ágústsdóttir. Systir Ólafs, Hrafnhildur Guðmundsdóttir, var fremsta sundkona sinnar kynslóðar og börn hennar, Arnar Freyr, Bryndís og Magnús Már voru í hópi allra fremstu sundmanna Íslands fyrir nokkrum árum. "Það er mikil og rík hefð fyrir sundi í föðurættinni," segir Örn Ólafsson. Foreldrar Kristínar, móður Arnar Evrópumeistara eru Jóhanna Loftsdóttir og Jens Eyjólfsson, en hann er látinn.
"Örn var fljótur að ná tökum á sundíþróttinni og ætli hann hafi ekki verið á þriðja ári þegar hann sleppti kútnum," segir faðirinn er hann rifjar upp barnsár sonar síns í lauginni. "Að auki kom snemma í ljós að hann hafði mikil þol og virtist geta verið í kafi mjög lengi. Þessi eiginleiki hefur nýst honum mjög vel núna þegar hann er kominn í keppni fremstu röð. Hins vegar þótti þetta afar einkennilegur eiginleiki hjá honum þegar hann var barn og oft kom fyrir að fólk sem í lauginni var bjargaði honum, hélt að barnið væri að drukkna en þá var hann að kafa. Þetta voru að sjálfsögðu eðlileg viðbrögð hjá fólki, það vissi ekki af þessum eigileikum drengsins. Við foreldrarnir gátum snemma gefið honum lausan tauminn í lauginni, þar var hann mjög öruggur."
Vildi ekki sitja á bekknum
Örn segir að þrátt fyrir mikinn sundáhuga fjölskyldunnar þá hafi Örn sonur sinn aldrei verið beittur þrýstingi til að leggja stund á íþróttina. "Það var bara eitthvað sem hann fann hjá sér þörf til þess að gera og auðvitað veittum við honum stuðning eins og foreldrar gera við börn sín. Örn var fimm ára þegar hann byrjaði að æfa sund. Síðar reyndi hann að leggja stund á handknattleik og knattspyrnu en gafst upp á að sitja á bekknum. Eftir að gefið aðrar íþróttir upp á bátinn snéri hann sér að fullum krafti að sundinu og það hefur skilað þessum árangri."
Örn segir son sinn alla tíð hafa lagt sig mjög fram við æfingar og hann hafi auk þess notið góðrar leiðsagnar þjálfara og þar hafi Klaus J¨urgen Ohk og síðar Brian Marshall núverandi þjálfari hans ráðið mestu. "Klaus vildi ekki að Örn einbeitti sér að aldursflokkametunum þegar hann var yngri. Hugsaðu frekar um tæknina, að ná tökum á henni. Ef þú slærð metin þá er það aukalega og vegna þess að þau eru svo slök. Fyrst og fremst er það tæknin, að synda rétt og fallega, sagði Klaus og hafði lög að mæla," segir Örn. Síðan þegar komið var upp í sveinaflokk fór áhuginn að slá met að aukast því hann var farinn að nálgast met Eðvarðs Þórs Eðvarðssonar. "Það var hins vegar eftirsóknarvert að slá aldursflokkamet Eðvarðs vegna þess að þau voru svo góð."
Örn segir að þáttaskil hafi orðið á ferli sonar síns sumarið 1995 á Aldrurflokkameistaramóti Íslands sem fram fór á Akureyri. "Þá vann hann margar greinar og sýndi í fyrsta sinn að hann væri virkilega sá besti." Fyrr sama ár hafði hann fengið viðurkenningu á Íslandsmeistaramótinu sem efnilegasti sundmaður mótsins.
"Ég er búinn að æfa síðan ég var sex ára eða í tæp sjö ár þannig að þetta kom mér ekki á óvart, mann hafði dreymt um þetta. Svo er stefnan tekin á drengjamet í 100 og 200 metra baksundi, sem er aðalsundið hjá mér, og halda svo áfram að bæta sig," sagði Örn í samtali við Morgunblaðið eftir mótið sem fram fór í Vestmannaeyjum. Síðan leið tíminn og aldursflokkametin féllu eitt af öðru og fór hann að slá eigin met svo fáir gætu hent reiður á fjöldanum.
Of ungur fyrir NM unglinga
Árið eftir hélt Örn áfram uppteknum hætti við að taka gríðarlegum framförum. Í bikarkeppni SSÍ um haustið vann hann sér inn keppnisrétt í baksundi á Norðurlandamót unglinga og Evrópumeistaramót fullorðinna. Hann var hins vegar of ungur til þess að taka þátt í Norðurlandamótinu þar sem strangar reglur gilda um að keppendur mættu ekki vera yngri en 16 ára, en Örn vantaði eitt ár upp á. Hins vegar mátti hann keppa á EM fullorðinna í Rostock. Eftir bikarkeppnina þar sem hann náði lágmörkunum sagði Örn m.a. í samtali við Morgunblaðið. "Það er mikið gleðiefni að hafa nú fengið sæti í landsliðinu, en það er nokkuð sem ég hef stefnt að um tíma." Um framtíðina sagði hann. "Fyrst og fremst er það EM unglinga eftir tvö ár, í framhaldinu eru það Ólympíuleikarnir í Sydney árið 2000."
Á Evrópumeistaramótinu synti Örn m.a. 50 m baksund, setti piltamet, 28,13 sek., en þess má til gamans geta að hann synti á 25,53 sek. á mótinu fyrir helgi.
Fyrsta Íslandsmetið
Sigrar og framfarir heldur áfram árið 1997 og á Íslandsmeistaramótinu í Vestmannaeyjum í mars setti hann sitt fyrsta Íslandsmet í fullorðinsflokki er hann bætti met Ragnars Guðmundssonar í 400 m skriðsundi. Á mótinu vann hann til átta gullverðlauna og tvennra silfurveðrlauna í tíu greinum. Þar með vann hann sér sæti í landsliði Íslands sem tók þátt í Smáþjóðaleikunum í Reykjavík snemma sumars. Örn var tvímælalaust einn fremsti sundmaður mótsins og vann til sjö verðlauna með boðsundum.
Um vorið fór Örn ásamt 19 íslenskum ungmennum til þátttöku á alþjóðlegu unglingasundmóti í Lúxemborg og vann þar flestar greinar sem hann tók þátt og náði m.a. besta tíma mótsins í 200 m baksundi. Keppendur sem voru allt að því þremur árum eldri höfðu ekki möguleika á að fylgja honum eftir. Skömmu síðar varð hann að hætta við þátttöku á heimsmeistaramóti fullorðinna í 25 m laug vegna þess að mótið var á sama tíma og samræmdu prófin í grunnskólunum stóðu yfir.
Í lok júlí var röðin komin að því að keppa fremstu jafnaldra sína í Evrópu á Ólympíudöguym æskunnar sem fram fóru í Lissabon. Sumir þeirra voru reyndar árinu eldri en Örn en mótið er haldið annað hvert ár og er ætlað 17 ár og yngri. Þar gerði Örn sér lítið fyrir, vann gull í 100 m baksundi og silfur í 200 m baksundi. Þar með var hann kominn á landskort sundmanna í Evrópu. Þremur vikum eftir mótið í Portúgal fór Örn ásamt nokkrum íslenskum sundmönnum til þátttöku á Evrópumeistaramótinu í 50 metra laug sem fram fór í Sevilla. Fyrir mótið setti hann sér þrennskonar takmark; bæta sinn persónulega árangur í 200 m baksundi, ná lágmarki fyrir HM í 50 m laug í Perth og safna inn á reikning reynslunnar. Allt gekk þetta eftir og Örn vann sér einn Íslendinga þátttökurétt á HM í Perth árið eftir. Besti árangur hans var 16. sætið í 200 m baksundi.
Vonbrigði með litla keppni
Áfram hélt sigurganga Arnar á heimaslóðum en keppnin var meiri við klukkuna en andstæðingana sem hann stakk yfirleitt af. Undir árslok tók hann þátt í Norðurlandameistaramóti unglinga í fyrsta sinn. Uppskeran var þrenn gullverðlaun en að mörgu leyti olli mótið honum vonbrigðum. "Hann var að gera sér vonir um að fá keppni en svo var ekki og því má segja að hann hafi komið eilítið óánægður heim þrátt fyrir þrenn gullverðlaun," segir Örn faðir hans. Eigi að síður voru margir andstæðingar hans árinu eldri. Á mótinu setti Örn m.a. sló hann eigið Norðurlandamet unglinga í 200 m baksundi, met sem hann hafði átt sjálfur en hafði ekki hugmynd um að væri í sinni eigu.
Jólin og áramótin fóru í undirbúning fyrir heimsmeistaramótið í 50 m laug sem fram fór í Perth í Ástralíu snemma þessa árs. Var hann fyrsti Íslendingurinn í tólf ár til þess að taka þátt í HM í 50 m laug. "Ég verð að segja að ég renni blint í sjóinn. Ætli ég stefni ekki bara á að gera mitt besta og sjá til hvaða niðurstöðu það leiðir," sagði Örn við Morgunblaðið fyrir mótið. Hann sagðist jafnframt vera fjórum árum á undan áætlun, það hefði ekki verið markmið sitt að vera með á HM í 50 m laug fyrr en árið 2002. Fyrir mótið veiktist Örn og gat ekkert æft um tíma og léttist m.a. um sex kíló og setti það verulegt strik í reikninginn. Hann hélt samt ótrauður af stað, keppti í 200 m skriðsundi og 100 og 200 m baksundi. Ætlunin var að safna reynslu úr því þetta tækifæri gafst.
Gull í Sydney
Í samtali við Morgunblaðið fyrir mótið kom Örn inn á framtíðarmarkmið sín, þau voru skýr og háleit. "Ég ætla mér að vinna til gullverðlauna á Ólympíuleikunum í Aþenu árið 2004. Ég held að það sé of snemmt að stefna að því árið 2000 í Sydney, en eins og mál standa nú tel ég þetta alls ekki vera óraunhæft markmið á leikunum árið 2004." Og rökin ...
"Eins og mál standa í dag þá á ég annan besta tíma í mínum aldursflokki í 200 metra baksundi, sá sem á Evrópumetið í mínum flokki, Sebastian Halhash frá Þýskalandi, er árinu eldri en ég. Miðað við að mér takist að halda mínu striki sem annar besti í Evrópu í dag á þessum aldri og ég haldi áfram að bæta mig stig af stigi á næstu árum eins og undanfarin ár tel ég gullverðlaun á Ólympíuleikum vera markmið sem ég ætti að geta náð, það er vissulega háleitt en síður en svo óraunhæft."
Á HM varð Örn í 37. sæti af 66 keppendum í 200 m skriðsundi. Í 100 m baksundi bætti hann sinn fyrri árangur í 50 m laug um 0,09 sekúndur, synti á 58,01 sek og varð í 33. sæti af 51. Í 200 m baksundinu varð hann í 20. sæti sem var vel viðunandi þrátt fyrir að hann væru um tveimur sekúndum frá sínum besta tíma.
Næsta stórverkefni Arnar var Evrópumeistaramót unglinga sem fram fór í Andwerpen í Belgíu um mánaðamótin, júlí og ágúst. Þar vann hann til tvennra silfurverðlauna í 200 m baksundi og 200 m skriðsundi og var nærri verðlaunum í 100 m baksundi, varð fjórði. Á mótinu náði hann einnig langþráðum árangri er hann sló 11 ára gömul Íslandsmet Eðvarðs Þórs Eðvarðssonar í 100 og 200 m baksundi karla. Það hafði verið takmark hans undanfarið ár. Í 200 m sundinu synti hann undir þágildandi Evrópumeti unglinga og í raun gerðu það fjórir efstu menn í sundinu. Þegar keppendur voru kynntir til leiks í úrslitum 200 m skriðsundsins sagði þulur mótsins að Örn væri einn efnilegasti sundmaður heims.
Íslandsmetið sem Örn setti í 200 m skriðsundi á mótinu var einkar athyglisvert, 1.50,63 mín. Það var ekki einungis Íslandsmet í 50 m laug heldur einnig í 25 m laug vegna þess að metið sem fyrir var í 25 m laug var lakara, en þessi tími. Þetta er afar sjaldgæft en sýnir vel hversu mikill styrkur Arnar er. Tíminn er jafnframt sá 35. besti sem náðst hefur í ár.
Í allra fremstu röð
Eftir þessa sigurför var næsta verkefnið bikarkeppni Íslands þar sem félag, Arnar, Sundfélag Hafnarfjarðar, vann fjórða árið í röð í stigakeppninni. Í bikarkeppninni var Örn tvímælalaust maður mótsins og setti þrjú Íslandsmet og einnig aldursflokkamet því hann er enn í piltaflokki. Synti 100 m baksund á 54,02 sek., og 200 m baksund á 1.57,12 mín. og bætti eigin met. Þessir tímar færðu honum þriðja og fjórða sætið á afrekalistum Evrópu í 25 m laug í þessum greinum á árinu.
Eftir mótið sagði Örn í samtali við Morgunblaðið. "Ég hvíldi ekki að fullu fyrir þetta mót og tel því að ég eigi að geta bætt mig enn frekar og stefni á að bæta mig enn frekar á Evrópumeistaramótinu um miðjan næsta mánuð." Eftirleikinn þekkja allir.
ÖRN Arnarson er hér, fremstur á mynd, í 200 m baksundi á leið að Evrópumeistaratitli í Sheffield.
ÖRN Arnarson stingur sér til sunds í 200 m baksundi á heimsmeistaramótinu í Perth í Ástralíu.