GERT er ráð fyrir því í samkomulagi Reykjavíkurborgar og Ríkisspítala um flutning Hringbrautar til suðurs að áfram verði leyfð umferð um götuna þar sem hún liggur nú, þ.e. að önnur akrein hennar verði notuð áfram. Er ætlunin að hún greiði leið inn á Landspítalalóð og að strætisvagnar fari um hana.
Áfram gert ráð fyrir umferð um gömlu Hringbrautina eftir að hún verður færð

Skerðir

nýtingarmöguleika

GERT er ráð fyrir því í samkomulagi Reykjavíkurborgar og Ríkisspítala um flutning Hringbrautar til suðurs að áfram verði leyfð umferð um götuna þar sem hún liggur nú, þ.e. að önnur akrein hennar verði notuð áfram. Er ætlunin að hún greiði leið inn á Landspítalalóð og að strætisvagnar fari um hana. Framkvæmdastjórn Ríkisspítala telur að gatan skerði möguleika á tengingu bygginga á Landspítalalóð ofan og neðan Hringbrautar.

Ingólfur Þórisson, aðstoðarforstjóri Ríkisspítala, tjáði Morgunblaðinu að til að ná samkomulagi við borgina um leyfi til framkvæmda við nýjan barnaspítala hefði framkvæmdastjórn Ríkisspítala orðið að samþykkja umferðargötu þar sem Hringbraut liggur nú. Sagði hann borgaryfirvöld hafa viljað spyrða þetta við veitingu byggingarleyfis.

Í Púlsinum, fréttabréfi Ríkisspítala, segir að stjórnendur og starfsmenn spítalans megi ekki láta undan síga og verði að berjast gegn þessari götu þegar að því komi að leggja hana árin 2001 til 2002. "Verði gatan lögð mun hún skerða verulega möguleika á þróun Landspítala og tengingu bygginga neðan núverandi Hringbrautar við efri hluta lóðarinnar. Ekki er ljóst á hvern hátt á að leysa bílastæðavanda spítalans þegar Reykjavíkurborg hefur tekið það landsvæði sem nota átti til að leysa þann bráða vanda," segir m.a. í Púlsinum.

Greiðari leið inn á Landspítalalóð

Stefán Hermannsson borgarverkfræðingur segir að umferðargata á sama stað og núverandi Hringbraut er sé m.a. hugsuð til að leyfa umferð strætisvagna sem þjóna myndu m.a. Landspítalanum og gera aðgang að Landspítalalóð greiðari úr austri en ætlunin væri að einstefna væri á götunni til vesturs. Hann sagði götuna aðeins verða tvær akreinar og forráðamenn spítalans fengju að ráða því hvort notuð yrði sú syðri eða nyrðri.

Þá sagði hann mögulegt að sveigja götuna eitthvað til ef það mætti verða til að ná betri nýtingu á bílastæðum. Stefán sagði umferð um þessa götu verða margfalt minni en um núverandi Hringbraut eða kannski 5 til 8 þúsund bíla á dag. Um Hringbrautina fara nú um 50 þúsund bílar. Borgarverkfræðingur benti og á að mjög mikil umferð væri að og frá Landspítalanum og því yrði að gera ráð fyrir góðum tengingum. Hámarkshraðann sagði borgarverkfræðingur verða 40 km á þessari götu.

Ekki liggja fyrir teikningar að endanlegum frágangi götunnar en gert er ráð fyrir að unnið verði að þeim í tengslum við deiliskipulag eigi síðar en á miðju næsta ári.