SAMAR og þeirra menning er ekki fyrirferðarmikil í íslenskum bókmenntum. Í Útisetunni eftir Guðrúnu Bergmann er þó fjallað um samskipti Sama og norrænna manna á landnámsöld og ferðalag ungrar konu alla leið til Íslands. Hvernig stóð á því að þú fékkst áhuga á þessu efni? "Hugmyndin kviknaði þegar ég var að lesa Íslendingasögurnar fyrir nokkrum árum.
Samar og nor rænir mennSAMAR og þeirra menning er ekki fyrirferðarmikil í íslenskum bókmenntum. Í Útisetunni eftir Guðrúnu Bergmann er þó fjallað um samskipti Sama og norrænna manna á landnámsöld og ferðalag ungrar konu alla leið til Íslands. Hvernig stóð á því að þú fékkst áhuga á þessu efni?
"Hugmyndin kviknaði þegar ég var að lesa Íslendingasögurnar fyrir nokkrum árum. Þá var ég að undirbúa Víkingakortin mín og sá hversu mikið af mönnum hafði komið siglandi hingað frá Hálogalandi eða hafði siglt þangað þegar þeir fóru til Noregs, enda eru þessar eyjar út af Norður-Noregi aðeins norðar en Ísland og menn kunnu að sigla eftir breiddarbaugum í þá daga. Við lesturinn rak ég líka oft augun í það að ýmsir innheimtu skatt af íbúum Finnmerkur þannig að norrænir menn fóru þangað norðureftir. Ég vissi að meðal Samanna voru miklir seiðmenn og fór að velta fyrir mér tengslum þarna á milli og hvort þau myndu hugsanlega skýra eitthvað þennan dulræna þátt sem í Íslendingum er, af því að hann er mjög sterkur" segir Guðrún og heldur áfram. "Það er nefnilega ekki mikið talað um að norrænir menn hafi búið yfir honum. Hins vegar er talað um finnakonur í sögunum og að þær hafi haft forspárgáfur og jafnvel að menn hafi leitað til finnakvenna áður en þeir héldu í landnám. Út frá þessu fór ég að leika mér með hugmyndina um að kannski hefði þessi dulræni þáttur í Íslendingum eitthvað tengst blöndun þarna á milli og fór að vinna með þetta sögusvið og spinna þræði í kringum það. Tveimur árum eftir að ég byrjaði á þessu verkefni las ég grein eftir Hermann Pálsson í Lesbók Morgunblaðsins þar sem hann ræðir þessi samísku tengsl og bendir meðal annars á að Egill Skallagrímsson hafi átt samíska langömmu."
Heimildavinnan hefur verið töluverð, hvar leitaðir þú helst fanga?
"Ég fór margar ferðir á bókasafn Norræna hússins til að skoða bækur um Sama, las sögur og upplýsingar um þjóðflokkinn sem hirðingja og eins þjóðsögur þeirra. Auk þess fór ég til Norður-Noregs. Mér fannst nauðsynlegt að fara á söguslóðir, bæði til að fá tilfinningu fyrir landinu og eins til upplýsingaöflunar. Ég flaug til Tromsö og á safninu við háskólann þar er stór samísk deild. Þeir kölluðu sig Sámi Sokka til forna og ég nota á-ið í Útisetunni og tala um Sámi fólkið. Á háskólasafninu fann ég margvíslegar heimildir, til dæmis um guðina sem Samar trúðu á á þessum tíma. Þar hitti ég Knut Helskog fornleifafræðing sem er yfir samísku deildinni. Hann eyddi miklum tíma í að fræða mig og eftir að ég kom heim og fór að vinna úr efninu sem ég hafði viðað að mér gat ég leitað til hans eftir nánari upplýsingum," segir Guðrún.
Frá Tromsö hélt Guðrún til Alta og þaðan til Kautokeino sem er inni á hásléttunni. "Þetta var í mars, mikill snjór og skafrenningur. Í Kautokeino skoðaði ég byggðasöfn og hitti að máli Sama, sem fæddir voru og uppaldir í kottjöldum (lávvu), komst í snertingu við hreindýrahjörð og borðaði matinn sem venjulega er eldaður í tjöldunum. Ég náði miklum tengslum við landið og fann einn "stað" en við þá eru steinar eða klettar þar sem Samarnir ákölluðu guði sína til forna. Á bakaleiðinni til Tromsö keyrði ég hringleið sem lá að stórum hluta í gegnum Finnland. Þar skynjaði ég óravíðáttu hásléttunnar og upplifði einsemdina, því allir ferðamannastaðir voru lokaðir og langt á milli bæja og stundum enga að sjá. Hér heima fór ég mörgum sinnum um allt landsvæðið sem sögupersónan ferðast um og reyndi að gera mér í hugarlund hvernig það liti út frá sjónarhorni gangandi manneskju, hver sjóndeildarhringurinn væri í skógi vöxnu landi og hugsaði um hvaða leiðir hún hefði valið. Í Borgarfirðinum leitaði ég til bænda um upplýsingar um vöð á ánum þar, því þótt slíkar upplýsingar séu ef til vill í einhverjum gömlum bókum vissi ég ekki hvar átti að leita þeirra. Ég er mjög þakklát öllum þeim sem hafa veitt mér upplýsingar, sem ef til vill er ekki beint hægt að lesa af síðum bókarinnar, en hafa gefið frásögninni bakgrunn" segir Guðrún.
ÉG fylgist með hreyfingum afa Ailos og þegar hann gefur mér merki, beygi ég höfuðið. Við það fellur skinnið af öxlum mér til jarðar. Afi Ailo stígur eitt skref fram og ég finn hversu skörp skynfæri mín eru eftir föstuna. Þau nema karlmannlega lykt hans sem er örlítið beisksúr svitalykt og finn hvernig hún blandast lyktinni af matnum sem hann hefur verið að borða og fitulykt úr hári hans.
Guðrún Bergmann