ÁÆTLAÐ er að verja rúmlega 600 milljónum króna úr Ofanflóðasjóði á næsta ári í gerð snjóflóðamannvirkja, en umhverfisráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi í gær framkvæmdaáætlun um varnir gegn ofanflóðum til næstu tveggja ára.
600 milljónir til varna við ofanflóðum

ÁÆTLAÐ er að verja rúmlega 600 milljónum króna úr Ofanflóðasjóði á næsta ári í gerð snjóflóðamannvirkja, en umhverfisráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi í gær framkvæmdaáætlun um varnir gegn ofanflóðum til næstu tveggja ára.

Að sögn Smára Þorvaldssonar verkfræðings, starfsmanns Ofanflóðasjóðs, er meðal verkefna á þessu tímabili gerð leiðigarðs á Ísafirði, lok við gerð leiðigarða á Siglufirði, bygging þvergarða og stoðvirkja í Neskaupstað og gerð leiðigarða á Seyðisfirði, ásamt snjóflóðavörnum á Patreksfirði og í Bíldudal.

Rammaáætlun um brýnar varnir á landsvísu við ofanflóðum til ársins 2010 var gerð 1996 og árið 1997 samþykkti ríkisstjórnin rammaáætlunina ásamt tveggja ára framkvæmdaáætlun. Á tímabilinu til 2010 var áætlað að verja 7,5 milljörðum króna til varna við ofanflóðum og þegar hefur verið varið rúmlega einum milljarði króna til framkvæmda á þessu sviði. Þar á meðal eru varnir við Flateyri og á Siglufirði, tilfærsla byggðar í Súðavík og uppkaup 20 húsa í Hnífsdal.