Skáldsaga um glæp
BÆKUR
Skáldsögur
PÓSTHÓLF DAUÐANS
Eftir Kristinn R. Ólafsson. Ormstunga, Seltjarnarnesi 1998, 253 bls.
EF MARKA má umfjöllun og
kynningu nýrra íslenskra bóka fyrir þessi jól fer vegur spennusagna vaxandi. Spennubókmenntir geta þó verið af margvíslegum toga og efnistök verið giska ólík og líklega nær undirtitill sagnaflokks skáldhjónanna Sjövall og Wahlö best utanum fyrirbærið; skáldsaga um glæp hétu sögurnar um Martin Beck og félaga í sænsku lögreglunni. Spennusaga snýst nánast alltaf um glæp og spurningar sem kvikna í kjölfarið, hver framdi glæpinn, hver eða hverjir urðu fórnarlömb glæpsins og aðalpersónan rekur upp þræðina, rifjar upp liðna sögu, kemst að ýmsu, dregur alls kyns ályktanir, upplýsir glæpinn. Lesandanum er haldið í spennu, ýmist er atburðarásin hlaðin æsandi viðburðum eða spennan stigmagnast eftir því sem fleiri kurl koma til grafar.
Pósthólf dauðans fjallar um meintan glæp. Aldraður Spánverji finnst myrtur á heimili sínu í Madrid 1992 og í ljós kemur að tengsl hafa verið milli hans og íslensks sjálfboðaliða í spænsku borgarastyrjöldinni sextíu árum áður. Íslenskur útvarpsfréttaritari í Madrid hefur komist yfir frásögn Íslendingsins af þátttöku sinni í borgarastyrjöldinni og hefur verið að taka viðtöl við Spánverjann gamla þegar morðið er framið. Fréttaritarinn liggur undir grun og hann fer að grafast fyrir um fortíð Spánverjans og reyna að leysa morðgátuna.
Höfundurinn reynir ekki að dyljast með nokkrum hætti á bakvið aðalpersónuna, hann gerir sjálfan sig að aðalpersónunni, se~nor Olafsson, íslenska útvarpsmanninum í Madrid. Þetta er bæði kostur og galli. Annars vegar gæðir þetta söguna heimildarskáldsögulegu yfirbragði og eykur á trúverðugleika hennar, en hinsvegar kippir það fótunum undan spennugildi sögunnar, því hversu mjög sem leikurinn æsist og fréttaritarinn flækist í málið er lesandinn þess ávallt vel vitandi að se~nor Olafsson í Madrid er enn í fullu fjöri og nýbúinn að senda frá sér skáldsögu auk útvarpspistla á liðnum misserum.
Umgjörð sögunnar er hið dularfulla dauðsfall en inntak hennar snýst um borgarastríðið á Spáni, uppgang fasismans og Spán undir járnhæl einræðisherrans Francos í nær fimmtíu ár. Undir því yfirskini að grafast fyrir um fortíð hins myrta dregur fréttaritarinn/höfundurinn fram alls kyns upplýsingar, dagbókarbrot og frásagnir úr borgarastríðinu og ekki síður hver urðu afdrif lýðveldissinna sem hnepptir voru í fangabúðir og þrældóm eftir að styrjöldinni lauk. Tengsl hins myrta og sjálfboðaliðans íslenska gera svo kleift að birta fróðleg skoðanaskipti á Íslandi um borgarastyrjöldina meðan á henni stóð. Allt er þetta upplýsandi og höfundi greinilega talsvert hjartans mál að koma þessu skilmerkilega til skila og dregur hvorki dul á skoðun sína á spænskum fasisma né með hverjum samúð hans stendur.
Kristinn R. Ólafsson er löngu þekktur fyrir persónulegan stíl á útvarpspistlum sínum og ritstíll hans leggst í svipaðar fellingar. Ritgleði og orðgnótt, myndrænar lýsingar með þungum áherslum á alls kyns smáatriði einkenna stílinn og bera frásögnina á stundum ofurliði; á köflum er því líkast sem höfundurinn hafi meiri áhuga á, jafnvel nautn af, orðalaginu sjálfu en innihaldi setninganna.
Frásagnarmátinn er ýmist í fyrstu eða annarri persónu þar sem sögumaður rifjar upp sögu hins látna, ávarpar hann, enda kveðst hann rekinn áfram að lausn gátunnar af anda hins framliðna. Frásagnaraðferðin dregur nokkurn dám af stíl rómanskra bókmennta, eins konar játningarstíll, þar sem sögumaðurinn rifjar upp frásögn hins látna af segulbandsupptökum og rekur eigin hugrenningar samhliða.
Kristinn R. Ólafsson hefur skrifað mikla sögu að vöxtum og sett sér þau margföldu markmið að semja heimildarskáldsögu og sveipa hana umgjörð spennusögunnar. Þetta tekst ekki nema að hluta því spennuumgjörðin er losaraleg og rofnar stundum alveg fyrir innblásnum frásögnum af lífi hins dauða Spánverja fyrr á öldinni. Engu að síður eru þetta bestu kaflar bókarinnar þótt þeir rími ekki við formúluna að hefðbundnum reyfara, enda vekur hið sögulega og pólitíska samhengi upp þá spurningu hvort hinn raunverulegi glæpur sem sagt er frá í Pósthólfi dauðans sé ekki mun stærri í sniðum en virðist við fyrstu sýn.
Hávar Sigurjónsson