Fræðsluferð Ferðamálaskólans í Kópavogi
Frá Hildi Jónsdóttur:
Á HAUSTDÖGUM fór hópur nemenda úr Ferðamálaskólanum í
Kópavogi í vettvangsferð á Reykjanes. Byrjað var á að aka í gegn um álfa- og víkingabæinn Hafnarfjörð og rætt um hvernig Hafnfirðingar hafa staðið að uppbyggingu í ferðaþjónustu síðastliðin ár með því að búa til ákveðin tilefni á hverju ári til mannfagnaðar í bænum. Þaðan var farið í Reykjanesbæ og Flughótel Keflavík sótt heim. Þar tók á móti hópnum ferðamálafulltrúi Reykjanesbæjar, Jóhann D. Jónsson, sem greindi frá samstarfi og uppbyggingu ferðaþjónustuaðila í Reykjanesbæ. Það var afar fróðlegt að heyra hversu miklu það hefur skilað ferðaþjónustuaðilum á svæðinu að starfa í auknum mæli saman að uppbyggingu og markaðsstarfsemi. Áfram var haldið að Reykjanesvita, þar sem brimið sér bylti með gný. Þar stendur enn sviðsmynd frá myndatöku kvikmyndarinnar Myrkrahöfðinginn, og veltu nemendur fyrir sér hvort svona rústum ætti ef til vill að halda við og nota áfram þá í þeim tilgangi að sýna byggingar frá eldri tímum. Það var síðan tekið á móti hópnum í Bláa lóninu, þar sem markaðsfulltrúi Bláa lónsins, Magnea Guðmundsdóttir, tók á móti hópnum og greindi frá þeim metnaðarfullu framkvæmdum sem eiga sér stað við Bláa lónið þar sem flytja á aðstöðuna og byggja nýja þjónustumiðstöð. Hópurinn var einhuga um hversu mikilvægt það er að geta farið á vettvang í slíku námi. Í Menntaskólanum í Kópavogi er boðið upp á nám á Ferðabraut til stúdentsprófs, ennfremur er starfandi Ferðamálaskóli Kópavogs sem býður upp á kvöldnám í ferðafræðum. Mikil sókn er í þetta nám og er það gleðiefni að boðið sé upp á nám til styrktar þessari víðtæku atvinnugrein sem ferðamálin eru orðin.
HILDUR JÓNSDÓTTIR,
landfræðingur og kennari í MK.
HÓPURINN hefur stillt sér upp við sviðsmynd úr myndinni Myrkrahöfðinginn sem enn stendur uppi við Reykjanesvita.