TALSMAÐUR taílenska flugfélagsins Thai Airways sagði í gær, að farþegaþotan, sem fórst í Suður- Taílandi í síðustu viku, hefði verið í góðu lagi og flugmennirnir farið að settum reglum. 101 maður beið bana í slysinu en 45 komust lífs af.
"Svörtu kassarnir" úr taílensku Airbus A310-200-þotunni sendir til rannsóknar Flugmennirnir sagðir hafa farið að reglum

Bangkok. Reuters.

TALSMAÐUR taílenska flugfélagsins Thai Airways sagði í gær, að farþegaþotan, sem fórst í Suður- Taílandi í síðustu viku, hefði verið í góðu lagi og flugmennirnir farið að settum reglum. 101 maður beið bana í slysinu en 45 komust lífs af.

Thamnoon Wanglee, einn af æðstu yfirmönnum Thai Airways, sagði, að flugvélin, Airbus A310- 200, hefði farið í allsherjarskoðun í júlí sl. og fyrstu athuganir bentu til, að flugmennirnir hefðu fylgt öllum öryggisreglum. Kvað hann það stefnu félagsins að taka aldrei neina áhættu þegar öryggismálin væru annars vegar.

Ófullkomið leiðbeiningarkerfi

Flugmennirnir voru að reyna lendingu í þriðja sinn á flugvellinum í Surat Thani þegar vélin brotlenti á akri skammt frá vellinum. Var veðrið mjög slæmt, úrhellisrigning og hvasst. Þeir, sem vinna að rannsókn slyssins, sögðu í fyrradag, að búnaður á flugvellinum, sem hjálpar flugmönnum við að lenda í slæmu veðri, hefði verið fjarlægður fyrir hálfu ári þegar unnið var við að lengja flugbrautina. Síðan hefði verið notast við annað leiðbeiningarkerfi en það krefðist betra skyggnis en var er vélin fórst.

Sa-ard Sattrasorn, varaforseti Thai Airways, sagði, að leyfilegt væri að reyna lendingu oftar en tvisvar en þá því aðeins, að skilyrðin hefðu batnað. Kvaðst hann ekki vita hvaða mat flugstjórinn hefði lagt á það en það kæmi vonandi í ljós við rannsókn á "svörtu kössunum". Hafa þeir fundist og verða sendir til Kanada og Hollands til rannsóknar.

Segja öryggisferilinn góðan

Talsmenn Thai Airways segja, að flugöryggisferill félagsins sé góður. Séu flugslysin aðeins tvö, það í síðustu viku og í júlí 1982 er Airbus A310-300 lenti á fjallshrygg í Himalajafjöllum er reynt var að lenda í Kathmandu í Nepal.

Thamnoon vísaði á bug fréttum í taílenskum fjölmiðlum þess efnis, að flugfélagið ætlaði ekki að greiða ættingjum hinna látnu sjö milljónir ísl. kr. eins og heitið var. Sagði hann, að staðið yrði við það.