Á FIMMTUDAG var haldinn síðasti fundurinn í nokkurra vikna fundalotu Almannavarna ríkisins og almannavarnanefnda í landinu. Hefur Almannavarnanefnd farið og hitt nefndirnar til að kynna m.a. nýtt innra skipulag stofnunarinnar. Alls sóttu 142 fundina, sem haldnir voru á Ísafirði, Akureyri, Selfossi, Reykjavík og Egilsstöðum.
Fundir Almannavarna um allt land

Á FIMMTUDAG var haldinn síðasti fundurinn í nokkurra vikna fundalotu Almannavarna ríkisins og almannavarnanefnda í landinu. Hefur Almannavarnanefnd farið og hitt nefndirnar til að kynna m.a. nýtt innra skipulag stofnunarinnar.

Alls sóttu 142 fundina, sem haldnir voru á Ísafirði, Akureyri, Selfossi, Reykjavík og Egilsstöðum. Fundirnir ganga undir heitinu fjórðungsfundir og er stefnt að því að halda slíka fundi tvisvar á ári.

Heimamenn sem voru úr röðum lögreglu, björgunarsveita, slökkviliða og bæjarstjórna, fluttu erindi um svæðisbundnar almannavarnir og þau verkefni sem unnið er að á hverju svæði. Með í för voru sérfræðingar frá Veðurstofu Íslands, Verkfræðistofnun Háskóla Íslands og Norrænu eldfjallastöðinni, mismunandi eftir landsfjórðungum.

Sólveig Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Almannavarna ríkisins, sagði að loknum síðasta fundinum að heimamenn í héraði hefðu verið mjög jákvæðir. Eitt af grundvallaratriðum í almannavörnum væri gott samstarf milli heimamanna í héraði og Almannavarna ríkisins.

NOKKRIR af þátttakendum fjórðungsfunda Almannavarna ríkisins og almannavarnanefnda á landsbyggðinni. Frá vinstri: Áslaug Þórarinsdóttir lögreglustjóri í Neskaupstað, Lárus Bjarnason lögreglustjóri á Seyðisfirði, Inger L. Jónsdóttir lögreglustjóri á Eskifirði, Sólveig Þorvaldsdóttir framkvæmdastjóri Almannavarna ríkisins og Hafþór Jónsson aðalvarðstjóri Almannavarna.