Konu dreymir mann með hrafnshöfuð NÆTURSÖNGVAR er heiti nýrrar skáldsögu Vigdísar Grímsdóttur. Í formála segir frá því þegar maður með hrafnshöfuð birtist konu í draumi og hvíslar að henni að hún eigi eftir að segja sögu þeirra.
Konu dreymir mann með

hrafnshöfuð

NÆTURSÖNGVAR er heiti nýrrar skáldsögu Vigdísar Grímsdóttur. Í formála segir frá því þegar maður með hrafnshöfuð birtist konu í draumi og hvíslar að henni að hún eigi eftir að segja sögu þeirra. Þremur árum síðar birtist hann henni á ný og í átta köflum er lýst jafnmörgum nóttum þar sem maðurinn með hrafnshöfuðið sýnir konunni veröld sem henni var áður hulin. Þegar erindum hans er lokið hverfur hann úr lífi hennar og hugsun hennar hefur breyst, ekkert er lengur sjálfsagt undir himninum.

Hver var kveikjan að Nætursöngvum?

"Kveikjan var náttúrulega undirvitundin sem er sífellt að starfa í manneskjunni og er virk meira að segja þegar við sofum. Inni í henni er heill heimur sem er svo merkilegur og skrýtinn og skemmtilegur. Í öllu sem ég hef skrifað hefur verið eitthvað um drauma en þeir hafa verið í aukahlutverki, meira til þess að kasta ljósi á atburðarásina og persónurnar. En þarna vildi ég að draumurinn réði öllu og væri sá heimur sem hefði mest vægi. Því þessi svokallaði raunveruleiki í bókinni hefur mjög lítið vægi en draumurinn hefur það sterka meiningu að hann umbreytir lífi konunnar, við fáum bara ekki að vita hvernig," segir Vigdís.

Maðurinn með hrafnshöfuðið, hver er hann eiginlega?

"Hann er maður með samvisku og án hennar, hann er maður sem hefur mikla ást í brjóstinu en getur ekki miðlað henni nema stundum, hann er egóisti og gjöfull ­ hann er sem sagt þú. Hann á sér fyrirmynd en það breytir engu ­ og fyrirmyndin er með höfuð, viðurkennt höfuð," segir Vigdís, dularfull á svipinn og segir svo að fyrirmyndin hafi nú þegar þekkt sjálfa sig við lestur sögunnar, hafi hringt og sagt: "Komdu sæl, þetta er maðurinn með hrafnshöfuðið, þakka þér fyrir bókina." "Ég sagði auðvitað ekkert," segir höfundurinn.

En hver er þá konan, hin aðalpersónan í bókinni?

"Þetta er konan sem hlustar á sína innri rödd og fer sínar eigin leiðir og leyfir sér sínar eigin efasemdir ­ samkvæmt því er hún líka þú."



Og svo man ég ekki meira eftir þessum morgni nema að ég naut hans og alls dagsins sem fylgdi honum þótt ég hugsaði sífellt um að við ættum bara eftir eina nótt saman.

Mig langaði til að hafa þau völd sem dygðu til að stjórna þeirri nótt og ráða hvernig við eyddum henni en ég vissi að sú ósk mín rættist ekki. Hann hlyti að ráða ferðum okkar og kveðjustað hverjar sem óskir mínar og langanir væru.

Og einhvern veginn hugsaði ég ekki lengur um að ég hefði hvorki vald yfir mínum eigin draumum né lífi. Sú hugsun og vanlíðanin sem henni fylgdi hefði verið frá mér tekin.

Ég veit núna hvers vegna.

Ég veit núna að mér var ætlað að skilja svo mér tækist betur að lifa, svo ég þekkti líf mitt betur, svo ég þekkti líf annarra betur.



Úr Nætursöngvum.

Vigdís Grímsdóttir