Húsavík-Vegna tilraunakeppninnar í eðlisfræði voru keypt til landsins tilraunatæki til þess að framkvæma próftilraunir leikanna. Verklega prófið sem fór fram í sumar fólst í því að um 300 keppendur þreyttu sömu tilraun í prófinu í Laugardalshöll.
Ólympíuleikatæki gefin til Húsavíkur

Húsavík - Vegna tilraunakeppninnar í eðlisfræði voru keypt til landsins tilraunatæki til þess að framkvæma próftilraunir leikanna. Verklega prófið sem fór fram í sumar fólst í því að um 300 keppendur þreyttu sömu tilraun í prófinu í Laugardalshöll.

Við tilraunina þurfti að nota sveifluvaka, stafræna spennu- og straummæla. Alls voru þetta um 500 tæki í 150 settum og heildarandvirði þeirra var um 10 millj. kr.

Að keppninni lokinni hafa tækin verið gefin til ýmissa framhaldsskóla og sl. miðvikudag lauk tveggja mánaða fræðsluferð Viðars Ágústssonar, framkvæmdastjóra 29. Ólympíuleikanna í eðlisfræði, um landið þegar hann afhenti Framhaldsskólanum á Húsavík þrjú slík sett tilraunatækja fyrir kennslu í rafmagnsfræði og rafsegulfræði með verklegri eðlisfræði. Viðar hefur að tilhlutan menntamálaráðuneytisins samið hæfilegt námsefni með þessum tilraunatækjum og haldið námskeið um notkun þeirra fyrir eðlisfræðikennara.

Framhaldsskólinn á Húsavík var hinn síðasti af þeim 23 framhaldsskólum sem tilraunatækin fengu og námskeiðanna nutu og veitti þeim tækjum móttöku á Húsavík Guðmundur Birkir Þorkelsson skólameistari og Gunnar Baldursson aðstoðarskólameistari og lýstu þeir ánægju sinni og þakklæti yfir að hafa fengið þessi tæki.

Morgunblaðið/Silli GUNNAR Baldursson tók við tækjunum fyrir hönd Framhaldsskóla Húsavíkur úr hendi Viðars Ágústssonar.