Sögusagnir fara hátt MULAN er þriðju vikuna í fyrsta sæti íslenska kvikmyndalistans þrátt fyrir harða samkeppni frá fjórum nýjum kvikmyndum. Sögusagnir eða "Urban Legend" varð hlutskörpust nýju myndanna og fór í annað sæti.
Sögusagnirfara hátt
MULAN er þriðju vikuna í fyrsta sæti íslenska kvikmyndalistans þrátt fyrir harða samkeppni frá fjórum nýjum kvikmyndum. Sögusagnir eða "Urban Legend" varð hlutskörpust nýju myndanna og fór í annað sæti. Er það spennuhrollvekja frá framleiðendum Ég veit hvað þú gerðir í fyrrasumar með nokkrum unglingastjörnum vestanhafs, þar á meðal Jared Leto úr sjónvarpsþáttunum "My So Called Life" og myndinni Switchback.
Einnig var myndin Hermaðurinn eða "Soldier" með gömlu slagsmálahetjunni Kurt Russell frumsýnd og fór hún í þriðja sæti. Í fjórða sæti varð Hvaða draumar okkar vitja eða "What Dreams May Come" með Óskarsverðlaunaleikurunum Robin Williams og Cuba Gooding Jr. Í fimmta sæti hafnaði svo myndin Ég verð heima um jólin eða I'll Be Home For Christmas með Jonathan Taylor Thomas úr Handlögnum heimilisföður.
"Við erum mjög ánægðir með Urban Legend," segir Christof Wehmeier hjá Stjörnubíói. "Það var stappað alla helgina. Svona hrollvekjuspennumyndir virðast fá hljómgrunn hjá ungu fólki og á næstunni verða sýndar Vampírur Johns Carpenters og framhaldsmyndin Ég veit enn hvað þú gerðir í fyrrasumar."
Næstu helgi verður aðeins ein frumsýning og verður það "Odd Couple II" með Jack Lemmon og Walter Mattheu sem sýnd verður í Laugarásbíói.
KÍNVERSKA stúlkan Mulan tekur stöðu föður síns í keisarahernum til að bjarga lífi hans í Disney-myndinni Mulan.
HROLLVEKJAN Sögusagnir skaust í annað sæti.