ELSKU Ísland, bráðum kem ég heim til þín nefnist ný landminningamynd sem Kvikmyndagerðin 20 geitur gefur út fyrir þessi jól. Hún er þrjár klukkustundir og sögð óbærileg á að horfa fyrir viðkvæma Íslendinga sem ekki hafa komið heim lengi. Höfundar myndarinnar eru þeir Böðvar Bjarki Pétursson, Pétur Már Gunnarsson og Vilhjálmur Goði Friðriksson.
Frumleg jólagjöf

Að gráta svolítið yfir Íslandi

Margur Íslendingurinn mun eiga erfið jól fjarri fjölskyldunni og öllu því sem íslenskt er og yfir máta yndislegt. Kannski nýja Landminningamyndin geti bjargað ástvinum úti í löndum?

ELSKU Ísland, bráðum kem ég heim til þín nefnist ný landminningamynd sem Kvikmyndagerðin 20 geitur gefur út fyrir þessi jól. Hún er þrjár klukkustundir og sögð óbærileg á að horfa fyrir viðkvæma Íslendinga sem ekki hafa komið heim lengi. Höfundar myndarinnar eru þeir Böðvar Bjarki Pétursson, Pétur Már Gunnarsson og Vilhjálmur Goði Friðriksson.

Eðli minninganna

"Böðvar Bjarki kom með þessa hugmynd og við Vilhjálmur Goði féllum strax kylliflatir fyrir henni, því svona mynd þarf auðvitað að vera til," segir Pétur Már um tilurð myndarinnar. "Myndin hefur hvorki upphaf né endi og er bæði samhengislaus og full af óreiðu. Hún er gerð með það í huga að hún verði sem líkust eðli minninganna og sem slík spegill á mann sjálfan, á hvern og einn. Hana má nota sem bakgrunnsstemmningu, eða jafnvel loka sig inni í herbergi yfir henni, slökkva ljósin og gráta svolítið yfir Íslandi. Myndin ætti að geta orðið mjög vinsæl, því það er mjög vinsælt að minnast Íslands á jólunum í útlöndum. Auk þess hefur öllum litist mjög vel á myndina sem hafa gefið sér tíma til að skilja hana."

Tapaður tími

Þótt myndin hafi upphaflega verið hugsuð sem jólagjöf til Íslendinga erlendis, þá segir Pétur Már hana ekki síðri fyrir Íslendinga á Íslandi, því myndin er úr fortíð, nær yfir langt tímabil og er unnin úr tvenns konar sjónvarpsefni. Í fyrsta lagi er það efni sem hefur þegar birst og við þekkjum öll einsog þulurnar, klukkan, þjóðsöngurinn og ýmislegt fleira. Hins vegar er það myndefni tekið upp fyrir sjónvarp sem hefur enn ekki birst. "Félagi okkar, hann Jón Þór, á afa sem keypti sér myndbandstæki fyrir rúmlega 15 árum. Þegar hann uppgötvaði þessa frábæru tækni ákvað hann að bæta upp tapaðan tíma og tók upp allt sem var í sjónvarpinu, alltaf. Þessar spólur voru okkur mjög nytsamar við gerð myndarinnar," segir Pétur Már.

Elsku Ísland, bráðum kem ég heim til þín mun ekki fást í verslunum, og geta áhugasamir snúið sér til Kvikmyndagerðarinnar 20 geita.

HÖFUNDAR myndarinnar Böðvar Bjarki, Vilhjálmur Goði og Pétur Már halda á gjafapakkningunni.

GERIST stemmningin íslenskari?