Um 500 manns í meðferð í öndunarvél vegna kæfisvefns
Kæfisvefn hefur lítið verið rannsakaður fyrr
en á síðustu 10 til 20 árum. Jóhannes Tómasson kynnti sér málið og heyrði ofan í Þórarin Gíslason lækni um þennan vanda.
KÆFISVEFN einkennist af endurteknum öndunarhléum, hrotum og óværum svefni þar sem sjúklingurinn byltir sér mikið og svitnar. Um 500 manns eru í meðferð vegna kæfisvefns hérlendis en hún er einkum veitt með sérstakri öndunarvél og í vissum tilvikum er hægt að beita skurðaðgerð eða lyfjameðferð. Þá er að ryðja sér til rúms að nota sérsmíðaðan góm sem gerir það að verkum að loftvegurinn helst betur opinn.
Þórarinn Gíslason, sérfræðingur í lungnalækningum á Vífilsstaðaspítala, hefur sérhæft sig í kæfisvefni og stundað umfangsmiklar rannsóknir á honum. Lauk hann doktorsprófi frá Uppsölum árið 1987 og hefur síðan starfað á Íslandi. Frá síðasta vori hefur Þórarinn verið yfirlæknir lungnalækninga á Vífilsstöðum og Landspítala. Þórarinn greindi frá rannsóknum sínum og ýmsu varðandi kæfisvefn í viðtali í nýlegu hefti Lyfjatíðinda og er hér á eftir byggt á því og stuttu samtali við hann.
Truflun í svefni að minnsta kosti 30 til 100 sinnum
Kæfisvefn er þegar truflun verður á öndun í svefni, þ.e. hlé verður á öndun minnst 30 sinnum og þau standa yfir í að minnsta kosti 10 sekúndur hvert. Önnur einkenni eru háværar hrotur, óvær svefn, sviti og síðan syfjar sjúklinga á daginn sem getur þýtt að þeir eigi erfitt með að stunda vinnu sína. Þórarinn segir þetta vera lágmarksskilmerki, hann sjái stundum sjúklinga með 300400 hlé yfir nótt og meðallengd á hléum geti verið 40 til 50 sekúndur. Þá sé kæfisvefn á háu stigi. Hann segir sjúklinga oft ekki gera sér grein fyrir að um svo miklar svefntruflanir sé að ræða, þeir telji sig hafa rumskað kannski tvisvar yfir nóttina en sofið samt þokkalega þótt mælingar sýni að þeir hafi vaknað kannski 100 sinnum.
Þegar kæfisvefn er á háu stigi er hann yfirleitt meðhöndlaður með sérstakri öndunarvél sem fólk sefur með. Þórarinn og samstarfsfólk hans þjálfa sjúklinga í notkun tækisins. Gríma er sett yfir nefið og blásið er lofti með yfirþrýstingi sem kemur í veg fyrir að kokið lokist. Kemur það í veg fyrir öndunarhlé og tryggir eðlilega öndun. Með því að sofa með grímuna á hverri nóttu fær sjúklingurinn eðlilegan svefn og þegar hann hefur notað grímuna í nokkrar vikur er oft rannsakað á ný og metið hvort meðferðin skuli halda áfram eða hvort farið verður út í aðra meðferðarmöguleika. Þórarinn segir í viðtali við Morgunblaðið að öndunarvélin tryggi eðlilegan svefn og næga hvíld. Slík öndunarvél kosti vel innan við 100 þúsund krónur með öllum fylgibúnaði og rannsónir bæði í Evrópu og Ameríku hafi sýnt verulegan peningalegan sparnað innan heilbrigðiskerfisins eftir að kæfisvefnssjúklingar eru komnir á rétta meðferð.
Ýmsir möguleikar eru á því að losna við kæfisvefn og nefnir Þórarinn nýjung sem er að ryðja sér til rúms í því efni:
"Það er gómur sem smíðaður er hjá tannsmið og heldur hökunni frammi þannig að kokið opnast. Hér hafa nokkrir sjúklingar prófað þessa meðferð og ég á von á að hún eigi eftir að ryðja sér mjög til rúms enda þægilegri viðureignar en öndunarvélin. Forsenda slíkrar meðferðar er að sjúklingurinn hafi eigin tennur og að ekki séu sjúkdómar í tannholdi."
Skurðaðgerð getur oft borið góðan árangur en henni er einkum beitt til að losa um þrengsli í loftvegi. Slík þrengsli geta orsakast af skekkju eða sepamyndun í nefi, stórum hálskirtlum, stórri tungu og lítilli höku sem veldur því að tungurótin er aftarlega og teppir eða lokar kokinu við svefn. Fjöldi aðgerða til að laga slíkar þrengingar hefur verið gerður á háls-, nef- og eyrnadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur. Þórarinn segir skurðaðgerðir þó á undanhaldi en meira sé horft til meðferðar með áðurnefndum gómi.
Tæplega 400 á biðlista
Þórarinn hóf mælingar á svefntruflunum árið 1987 og var fyrstu árin aðeins hægt að rannsaka einn sjúkling á nóttu og voru þannig rannsakaðir rúmlega 200 á ári. Árin 1993 og 1994 voru rannsakaðir um 360 sjúklingar og yfir 600 á ári frá 1995. Á biðlista eftir fyrstu mælingu eru 368 manns en nú eru 502 meðhöndlaðir með öndunarvél, 450 vegna kæfisvefns en hinir vegna öndunarerfiðleika í svefni. Rannsóknirnar fara nú einkum fram með tækjum sem smíðuð eru hérlendis, hjá Flögu, fyrirtæki Helga Kristbjarnarsonar læknis og fleiri, sem sagt hefur verið frá í Morgunblaðinu. Eitt vandamálið við biðlistann segir Þórarinn vera að starfsmann vanti til mælinganna. Nauðsynleg grunnmenntun til starfsins er hjúkrunarfræði, líffræði eða sálarfræði. Hefur ekki tekist að fá slíkan mann þrátt fyrir auglýsingar en þegar hann er fenginn verður hægt að rannsaka sex sjúklinga á nóttu.
Þekking lækna á kæfisvefni hefur í raun verið að safnast upp á aðeins síðustu tveimur áratugum, þó einkum síðustu 10 árin. Þórarinn hefur stundað rannsóknir bæði í Svíþjóð og á Íslandi, tekið fyrir hópa karla og kvenna og telur hann að í framtíðinni verði greiningarbúnaður einfaldari og að fleiri meðferðarform finnist.
Morgunblaðið/Árni Sæberg RANNSÓKNIR á öndunartruflunum í svefni fara fram á Vífilsstaðaspítala. Þórarinn Gíslason, sérfræðingur í lungnalækningum, stjórnar þeim.