SIGURÐUR Þórðarson ríkisendurskoðandi segir að athugasemdir sínar varðandi lífeyrisréttindi bankastjóra Búnaðarbankans hafi lotið að því hvernig lífeyrisréttindin voru reiknuð, en ekki um varðveislu réttindanna.
Ríkisendurskoðandi um lífeyrisrétt bankastjóra

Gerði athugasemdir við útreikning réttindanna

SIGURÐUR Þórðarson ríkisendurskoðandi segir að athugasemdir sínar varðandi lífeyrisréttindi bankastjóra Búnaðarbankans hafi lotið að því hvernig lífeyrisréttindin voru reiknuð, en ekki um varðveislu réttindanna.

Pálmi Jónsson, formaður bankaráðs Búnaðarbankans, sagði í Morgunblaðinu í gær að Sigurður Þórðarson ríkisendurskoðandi hefði 15. apríl 1997 samþykkt bókun bankaráðs um lífeyrisréttindi bankastjóra. Áður hefur komið fram í blaðinu að Sigurður gerði athugasemdir við ákvarðanir bankaráðsins þegar frá lífeyrisréttindunum var gengið nú í haust. Sigurður var spurður um þetta.

"Ég kem að þessu máli sem endurskoðandi bankans og það út af fyrir sig gerir það að verkum að ég á erfitt með að tjá mig opinberlega um einstök atriði. Ég hef gert stjórn Búnaðarbanka Íslands og viðskiptaráðherra grein fyrir sjónarmiðum mínum hvað varðar þessi lífeyrisréttindi.

Það eru tvö meginatriði í þessu sem skipta máli. Það er annars vegar hvernig menn reikna út þessi réttindi og hins vegar hvernig menn varðveita þau. Ég hef fyrst og fremst gert athugasemdir við fyrri þáttinn, þ.e. útreikningana. Ég hef ekki gert athugasemdir við hvernig menn varðveita þessi réttindi, þ.e. hvort menn setja þá inn í séreignarsjóð eða ekki.

Varðandi þessa bókun sem formaður bankaráðs Búnaðarbankans vísar til að ég hafi áritað þá er það út af fyrir sig alveg hárrétt. Ég sá þessa bókun og gerði ekki athugasemdir við hana, en það var gert miðað við tilteknar forsendur og mönnum er kunnugt um hvaða athugasemdir ég hef gert síðan við þær," sagði Sigurður.