UM TVÖ þúsund íranskir rithöfundar og stuðningsmenn þeirra söfnuðust saman í Teheran í gær til að fylgja til grafar Mohammad Mokhtari, einu þeirra skálda og rithöfunda sem hafa verið myrt á dularfullan hátt í Íran að undanförnu. Fregnir bárust af því í gær, að nokkrir menn hefðu verið handteknir í tengslum við rannsókn morðanna.
Myrtum írönskum skáldum og rithöfundum fylgt til grafar í Teheran Fregnum um handtökur tekið með fyrirvara

Teheran. Reuters.

UM TVÖ þúsund íranskir rithöfundar og stuðningsmenn þeirra söfnuðust saman í Teheran í gær til að fylgja til grafar Mohammad Mokhtari, einu þeirra skálda og rithöfunda sem hafa verið myrt á dularfullan hátt í Íran að undanförnu. Fregnir bárust af því í gær, að nokkrir menn hefðu verið handteknir í tengslum við rannsókn morðanna.

Mahmoud Dolatabadi skoraði á þátttakendur í útförinni, sem gerð var frá Al-Nabi-moskunni í Teheran að viðstöddum mörgum rithöfundum sem höfðu verið í felum síðustu daga, að halda ró sinni og gera ekki pólitíska mótmælagöngu úr líkfylgdinni. Hætta væri á að slíkt yrði "mistúlkað" í því þrúgandi andrúmslofti spennu sem nú ríkti.

En margir virtust fullir efasemda um að handtökur þær sem tilkynnt var um síðla mánudags byndu enda á morðölduna, sem hefur kostað að minnsta kosti þrjá frjálslynda rithöfunda og tvo virka andófsmenn klerkastjórnarinnar lífið.

"Þeir hafa byrjað á því að ráðast gegn [veraldarhyggjusinnuðum] andófsmönnum sem ógna kerfinu alls ekki og bjóða ekki upp á raunhæfan valkost í pólitísku tilliti," sagði rithöfundur sem ekki vildi láta nafns síns getið. "En þeir munu snúa sér næst að íslömskum menntamönnum sem hafa alvarlega gagnrýnt lögmæti kerfisins," sagði hann.

Næstu fórnarlömb?

Hófsöm írönsk dagblöð endurspegluðu hinn almenna ótta í þjóðfélaginu með því að velta vöngum opinberlega yfir næstu líklegu fórnarlömbum morðöldunnar, en efst á þeim lista tróna þekktustu gagnrýnendur stjórnmálaástandsins í landinu úr röðum íslamskra menntamanna og blaðamenn sem hafa gagnrýnt valdakerfi klerkastjórnarinnar. Harðlínublöð vöruðu við samsæri zíonista og CIA, bandarísku leyniþjónustunnar; slík erlend öfl stæðu að baki morðunum í því skyni að koma höggi á Íransstjórn.