Eftir Steindór Ívarsson, eigin útgáfa, Reykjavík, 1998, 63 bls. BÚRIÐ er fyrsta ljóðabók höfundar. Verkið byrjar á einskonar ávarpi til "vinar" en "Búrið/var eitt sinn vinur minn" segir á öðrum stað. Ávarpið er eina ljóðið þar sem skáldið leyfir sér mælsku og beinir spjótum sínum að fordómum samfélagsins.

Ástin og dauðinn

BÆKUR

Ljóð BÚRIÐ

Eftir Steindór Ívarsson, eigin útgáfa, Reykjavík, 1998, 63 bls.

BÚRIÐ er fyrsta ljóðabók höfundar. Verkið byrjar á einskonar ávarpi til "vinar" en "Búrið/var eitt sinn vinur minn" segir á öðrum stað. Ávarpið er eina ljóðið þar sem skáldið leyfir sér mælsku og beinir spjótum sínum að fordómum samfélagsins. Bókin skiptist í fjóra hluta; sá fyrsti, "Búrið", lýsir upplifun og afneitun samkynhneigðar, í öðrum kafla, "Frelsi", er viðfangsefnið ástin, í þeim þriðja, sem hefur ekki nafn heldur kross sem titil, er tekist á við dauða ástvinar. Fjórði kaflinn nefnist "Sátt" og samanstendur af þremur ljóðum. Enda er sáttin ef til vill ekki mikil.

Merkja má aukinn áhuga á hlutskipti samkynhneigðra í samtímanum, jafnvel aukinn skilning á menningu þeirra. Yrkisefni Steindórs hafa hinsvegar verið algengari á öðrum bókmenntasviðum, í skáldsögum og leikritum, en eitt albesta leikrit síðari ára, Ástarsaga 3 eftir Kristínu Ómarsdóttur, fæst við svipaða hluti. Þá má nefna Engla í Ameríku en eitt af nokkrum leiðarminnum Búrsins er það sama og í því ágæta stykki: englar. Meiri nálægð er í ljóðum Steindórs, enda býður formið uppá það. Ljóðin eru einföld og persónuleg og í þeim sársauki og spenna. Titilljóð verksins er prósi í þremur hlutum sem fjallar um "ótta við að upplifa ást sem samfélagið fordæmir" einsog sagt er á bókarkápu. Ljóðmælandi kemst útúr búrinu í lok fyrsta hlutans og eiginlega halda ljóðin áfram með sögu. Fallegustu ljóðin eru, að mér finnst, í öðrum hlutanum, ljóð um ást og erótík, svo sem "Birting":



Ofurhægt

birtist þú mér

í rökkrinu



Léttan

stigum við dans

í ásýnd allra



Að lokum elskaði ég þig

og enn í dag

undrast ég gæfu mína



Búrið myndar sterka heild. Mörg ljóðin eru með stuðlum, leifum af ljóðahefðinni, þau sterkustu eru stuttar, hversdagslegar myndir. Ljóðin eru jöfn og sviplík en í þremur þeirra er notuð sú aðferð að dulkóða bannorð með því að feitletra vissa stafi; lesturinn líkist ráðningu krossgátu og þessi ljóð standa ekki nægilega undir sér að öðru leyti. Önnur ljóð ná því að vera ekki aðeins sterk heldur ágæt, einkum "Neon", "Leikvöllur drauma"og "Von":



ilmur

af nýju

vori



brosandi

orð

af fölu andliti



gull

reykelsi

myrra



happaþrennan sem brást



Búrið þolir vel marga lestra. Yrkisefni Steindórs Ívarssonar eru klassísk, ástin og dauðinn. En sjónarhornið er óhefðbundið, fögnuður og gleði yfir hlutum sem fyrir flesta eru sjálfsagðir. Búrið er ekki hnökralaust verk en í því eru samt óvenjuleg og sterk ljóð.

Hermann Stefánsson

Steindór Ívarsson