Veiðiskapur í dulvitundinni
BÆKUR
Ljóð
ÞÖGN EINBÚANS
Eftir Þóri Björn Lúðvíksson, eigin
útgáfa, Akranes, 1998, 80 bls.
"... Tjáning þín er einlæg, en á nokkuð langt í land með að verða ljóðræn. Myndmál þitt er ekki laust við klisjur ..." "Mér finnst vera nokkuð um predikun í þessu ..." Ekki er verra að ljóðabækur láti mann vita fyrirfram um galla sína einsog gert er með fyrrgreindum orðum, höfðum eftir ónefndum lesanda, í einskonar formála að Þögn einbúans sem er fyrsta ljóðabók höfundar.
Þetta stemmir. Tjáningin er einlæg en á nokkuð langt í land með að verða ljóðræn, myndmálið er ekki laust við klisjur og nokkuð er um predikun í ljóðum Þóris. Predikunin er þar að auki í takt við aðra tíma: heimsendastemmningu kalda stríðsins. Eitt ljóð er sett upp einsog kjarnorkusveppur, nokkuð sem mér finnst bara vera hægt að gera einu sinni og Ísak Harðarson er búinn að því. Annað ljóð er ort til Ísaks ("Minning um mann (frá einum Áskeli til annars)") sem bersýnilega hefur haft mikil áhrif á Þóri. Í öðrum ljóðum er farið á fiskerí í dulvitundinni. Þessi ljóð valda ekki alltaf merkingu, eru stundum hrá og illskiljanleg. Önnur heppnast betur, svo sem "Lesið í jörðina":
Dalalæða.
Hví leynist þú
svo lævís
í undirdjúpum vitundarinnar
þar sem hugsanir eilífðar og dauða
dvelja einmana, yfirgefnar?
Ekki einar!
Nei!
Hver vill deila þeim?
Bókin skiptist í fjóra hluta og má lesa úr þeim byggingu eða stígandi. Tónninn er sleginn með prólógus ljóði sem heitir "Þögn". "Sjálfið (upphafið ... og endir)" heitir fyrsti hlutinn, "Hið óljósa bil" tekur við, þvínæst "Heildin" og að endingu "Minningar um lok". Yrkisefnin eru margháttuð, frá tvöþúsund vandanum í skáldskap og trúarlegum tilvistarvanda til ástar og stríðs. Þykkt bókarinnar er virðingarverð og inn á milli slæðast prýðis ljóð einsog "Kaffi herra D?" og "Lesið í skýin". Styrkur Þagnar einbúans felst í hugmyndaríki og bruðli með orðin. Bestu ljóðin eru byggð á einni hugmynd einsog "Leikur":
Englarnir leggjast á bakið í loftinu
og færa hendur og fætur
upp og niður
Síðan standa þeir upp
varlega
og horfa ánægðir
á myndirnar sem sitja eftir,
myndir af litlum börnum.
Þeir trúa á börnin
og skapa því form þeirra
í síbreytilegan himininn.
Það er heilmikill kraftur í Þögn einbúans og hann fer langt með að bæta upp vankantana. Skáldið á þó langt í land og ég vitna í fyrrnefndan formála: "Enda ungur að árum og mín fyrsta tilraun, asninn þinn."
Hermann Stefánsson