FUNDUR smábátaeigenda á norðanverðum Vestfjörðum haldinn nýlega telur algjört hrun blasa við, verði núverandi frumvarp til laga um breytingu á stjórn fiskveiða að lögum. Á fundinn mættu yfir 70 manns og var eftirfarandi ályktun samþykkt þar: "Við skorum á þingmenn Vestfjarða að vinna af alefli gegn fram komnu frumvarpi til laga um breytingar á fiskveiðilögum.
"Algjört hrun blasir við"

FUNDUR smábátaeigenda á norðanverðum Vestfjörðum haldinn nýlega telur algjört hrun blasa við, verði núverandi frumvarp til laga um breytingu á stjórn fiskveiða að lögum. Á fundinn mættu yfir 70 manns og var eftirfarandi ályktun samþykkt þar:

"Við skorum á þingmenn Vestfjarða að vinna af alefli gegn fram komnu frumvarpi til laga um breytingar á fiskveiðilögum. Við tökum undir með Fjórðungssambandi Vestfjarða og bæjarstjórn Bolungarvíkur um að ef frumvarp þetta verður að lögum, þá blasi við algjört hrun á Vestfjörðum.

Það er krafa fundarins að sóknarbátum verði tryggðir nægilega margir veiðidagar, að dugi til rekstrar á bát og framfærslu fjölskyldu. Að lágmarki 40 dagar án aflatopps.

Það er einnig krafa fundarins að allar þær tegundir sem hafa verið utan kvóta í þorskaflahámakri verði það áfram.

Þetta mál er ekki einkamál smábátasjómanna. Nái frumvarp þetta fram að ganga, mun það leggja vestfirskar byggðir í eyði með þeim hörmulegu afleiðingum sem það mun hafa í för með sér.

Vestfirðingar hafa að undanförnu gengið í gegnum miklar hamfarir, en þær afleiðingar sem af þessu frumvarpi hljótast, munu höggva stærri skörð í vestfirskar byggðir en áður hefur þekkst."