Andrea og Blúsmenn. Andrea Gylfadóttir syngur þekkt blúslög við undirleik Blúsmanna. Blúsmenn eru: Guðmundur Pétursson gítar, Haraldur Þorsteinsson bassi, Einar Rúnarsson Hammond orgel, Kjartan Valdemarsson Rhodes píanó, harmónikka, Jóhann Hjörleifsson trommur, slagverk. Auk þeirra leika þeir Jóel Pálsson, Einar Jónsson, Snorri Sigurðsson á blásturshljóðfæri.
Hiti, reykur,

háski og sviti TÓNLIST Geisladiskur ANDREA OG BLÚSMENN Andrea og Blúsmenn. Andrea Gylfadóttir syngur þekkt blúslög við undirleik Blúsmanna. Blúsmenn eru: Guðmundur Pétursson gítar, Haraldur Þorsteinsson bassi, Einar Rúnarsson Hammond orgel, Kjartan Valdemarsson Rhodes píanó, harmónikka, Jóhann Hjörleifsson trommur, slagverk. Auk þeirra leika þeir Jóel Pálsson, Einar Jónsson, Snorri Sigurðsson á blásturshljóðfæri. Útsetningar eru eftir Andreu og Blúsmenn en málmblástursútsetningar eru eftir Jóel Pálsson, Guðmund Pétursson og Össur Geirsson. Hljóðritun, hljóðblöndun og -vinnsla var í höndum Þorvaldar Bjarna Þorvaldssonar. Spor gefur út. MARGIR halda því fram að blústónlist eigi ekki að taka upp í hljóðverum. Hin frjálsa, óhefta tjáning sem blúsinn kalli á verði best kölluð fram á tónleikum enda mótist tónlistin af aðstæðum, viðbrögðum áhorfenda og samspili hljóðfæraleikara. Vísast er hér á ferðinni óhóflegur "púrítanismi", fjölmargar ágætar blúsplötur hafa verið unnar í hljóðverum og vitanlega geta hæfir hljóðfæraleikarar náð upp góðu samspili við slíkar aðstæður eins og diskur Andreu Gylfadóttur og Blúsmanna er raunar ágætt dæmi um. Algengt er enda að sem mest af hljóðfæraleiknum sé tekið upp samtímis til þess að rétt tilfinning skapist. "Blús" stendur aldrei undir nafni verði hann vélrænn; lífsháskinn, reykurinn, myrkrið og svitinn eru forsendur hans, næring þessa undursamlega, einfalda en um leið gríðarlega erfiða tónlistarforms. Andrea Gylfadóttir syngur öðrum konum betur blús. Rödd hennar hentar þessu tónlistarformi sérlega vel og tilfinning hennar fyrir blúsnum er einlæg og sönn. Raddbeiting hennar er á köflum listileg, tæknin nánast óaðfinnanleg og túlkunin yfirleitt áhrifamikil og blæbrigðarík. Allir þessir eiginleikar Andreu Gylfadóttur komast til skila á geislaplötunni "Andrea og Blúsmenn". Hér eru á ferðinni gamlir kunningjar, réttnefndir "standardar" ­ má þar nefna tvö bráðgóð Billy Holiday-lög "God Bless The Child" og "Lady Sings the Blues", "29 Ways" eftir Willy Dixon, "I'd Rather Go Blind" eftir Jordan og Foster, "Hound Dog" þeirra Lieber og Stoller og ekki má gleyma "Stormy Monday" T-Bone Walkers. Um lögin á plötunni gildir að flest henta þau Andreu Gylfadóttur sérlega vel. Túlkun hennar á "God Bless the Child" er mjög áheyrileg og hún fer listilega með "I'd Rather Go Blind" og "29 Ways". "Stormy Monday" sýnir hún þann sóma sem þetta magnaða lag á skilið. "Hound Dog" er hér í skemmtilegri útsetningu, takturinn og tempóið grípandi en almennt virðist Andrea Gylfadóttir ná betra flugi í rólegum blúslögum. Valinkunnir fagmenn sjá um undirleikinn og er samvinna þeirra í langflestum tilfellum góð. Hins vegar er hann að smekk þess sem þetta ritar full "akademískur" og fyrirsjáanlegur. Altjent verða þeir Blúsmenn seint vændir um að skyggja á söngkonuna. Hljóðfæraleikur þeirra er vandaður en í hann vantar á stundum lífsháskann, hann er á köflum úr hófi fram "flatur", þau tækifæri sem þetta tónlistarform býður hljóðfæraleikurum upp á að sýna tilþrif eru ekki alltaf nýtt sem skyldi. Hammond orgelið, þetta dásamlega hljóðfæri, er notað af mikilli smekkvísi og blástursútsetningar eru áheyrilegar. Guðmundur Pétursson hefði að ósekju mátt sýna minni hófstillingu þótt gítarleikur hans sé ávallt þannig að eftirtekt veki. Geisladiskur þeirra Andreu Gylfadóttur og Blúsmanna er áheyrilegur og vandaður gripur, sem stenst fyllilega alþjóðlegan samanburð. Hér er á ferðinni söngkona, sem ávallt er mjög góð, oftast mögnuð og á stundum öldungis frábær. Diskurinn líður hins vegar fyrir það að hitann, reykinn, háskann og svitann vantar á köflum í undirleikinn. Ásgeir Sverrisson.