SÍLDARVINNSLAN í Neskaupstað er nú að kanna möguleika á því að fá norska fjölveiðiskipið Gunnar Longva á leigu til kolmunnaveiða á næsta ári. Útgerð skipsins í Álasundi í Noregi hefur sent umsókn til norska sjávarútvegsráðuneytisins um að leigja skipið til Íslands frá 15. apríl til 15 september á næsta ári. Málið er nokkuð snúið, því leigan gæti haft veiðileyfismissi í Noregi í för með sér.
Síldarvinnslan

vill leigja norskt

kolmunnaskip

Andstaða við leiguna meðal

norskra útgerðarmanna

SÍLDARVINNSLAN í Neskaupstað er nú að kanna möguleika á því að fá norska fjölveiðiskipið Gunnar Longva á leigu til kolmunnaveiða á næsta ári. Útgerð skipsins í Álasundi í Noregi hefur sent umsókn til norska sjávarútvegsráðuneytisins um að leigja skipið til Íslands frá 15. apríl til 15 september á næsta ári. Málið er nokkuð snúið, því leigan gæti haft veiðileyfismissi í Noregi í för með sér.

Síldarvinnslan hefur nýlega selt rækjutogarann Blæng og hefur því svigrúm til að taka inn nýtt skip, þótt það sé aðeins tímabundið. Mikilvægt er að ná sem mestum skerf af kolmunnaaflanum á næstu árum, því líklegt er að Fiskveiðinefnd Norðaustur-Atlantshafsins setji kvóta á kolmunnann áður en langt um líður. Finnbogi Jónsson, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, segir óljóst hver framvinda málsins verði. Það kunni að verða erfitt að fá leyfi fyrir leigu skipsins.

Gæti misst veiðileyfið

Fjallað er um mál þetta í norska sjávarútvegsblaðinu Fiskaren. Þar segir að það kunni að vera góður kostur fyrir norsku útgerðina að leigja Gunnar Longva, sem er öflugt fjölveiðiskip, þann tíma, sem verkefni fyrir það eru lítil við Noreg. "Það er hins vegar ekki bara svo einfalt að skrifa undir leigusamning og senda skipið til Íslands. Það er hugsanlegt að taka verði skipið af norskri skipaskrá og þá gæti það misst veiðiheimildir sínar. Þetta er í fyrsta sinn, sem svona mál kemur upp í Noregi og því hefur sjávarútvegsráðuneytið fengið fyrirspurn um það hvaða afleiðingar það kunni að hafa að leigja skipið úr landi. Vera kann að ráðuneytið verði að taka ákvörðun um hvort heimilt er að leigja skipið.

Ekki allir hrifnir

Það lízt ekki öllum í Noregi á það að verið sé að leigja norska kolmunnatogara í úrvalsflokki til keppinauta meðal annarra þjóða. "Margir telja að norskir útgerðarmenn eigi ekki að hjálpa Íslendingum til að ávinna sér veiðirétt á kolmunnanum, sagði formaður Útvegsbændafélags Suðurmæris og Romsdals, Terje Sævík, í samtali við Suðurmærispóstinn. Hann vonaðist til að stjórnvöld kæmu í veg fyrir þessa leigu.

Audun Maraak, framkvæmdastjóri Samtaka norskra útgerðarmanna, styður Sævík. "Án þess að ég sé að benda á einhverja sérstaka útgerð, legg ég áherzlu á að við ættum að komast hjá því að önnur lönd auki réttindi sín til kolmunnaveiða. Hagsmunum Norðmanna er ekki þjónað með því að Norðmenn styðji veiðar með það markmið í öðrum löndum," segir hann í samtali við Fiskaren. Hann bendir einnig á, að þegar séu dæmi um að Norðmenn hafi tekið þátt í slíkri útgerð og nefnir þar færeyska skipið Christjan í Grótinum og norska skipið Garðar sem veiddi kolmunna undir íslenzku flaggi í sumar.