Þorgrímur Getsson tók saman. 336 bls. Bókaútg. Íslenskur annáll. Prentun: Viðey ehf. Reykjavík, 1998. ÁTTA ár eru skammur tími í lífi þjóðar en langur tími í lífi einstaklings og ennþá lengri í stjórnmálasögunni. Bók þessi hefst á áramótaávörpum þáverandi forseta og forsætisráðherra, Vigdísar Finnbogadóttur og Steingríms Hermannssonar.

Ár og atburðir

BÆKUR

Sagnfræði ÍSLENSKUR ANNÁLL 1990 Þorgrímur Getsson tók saman. 336 bls. Bókaútg. Íslenskur annáll. Prentun: Viðey ehf. Reykjavík, 1998. ÁTTA ár eru skammur tími í lífi þjóðar en langur tími í lífi einstaklings og ennþá lengri í stjórnmálasögunni. Bók þessi hefst á áramótaávörpum þáverandi forseta og forsætisráðherra, Vigdísar Finnbogadóttur og Steingríms Hermannssonar. Síðan kemur frétt af fyrstu fæðingu ársins með mynd af móður og barni. Allt hlýtur þetta að teljast sjálfsagt upphaf árbókar. En nýársdagurinn líður að kvöldi. Og strax að morgni tekur við alvara lífsins. Árið 1990 var talsvert viðburðaríkt á alþjóðavettvangi en alls ekkert tímamótaár hér innanlands. Kreppa lá í landi; séríslensk að því er hagtölur tjáðu þar sem flest gekk sinn vanagang í nálægum löndum. Loðdýrarækt og fiskeldi hafði ekki skilað þeim hagnaði sem vænst hafði verið. Þvert á móti skildi hvort tveggja eftir sig botnlausa skuldasúpu. Fyrirtækin lögðu upp laupana og drógu aðra með sér í fallinu. Byggingameistarar, sem reistu mannvirkin, fengu ekki greitt og tókst þá ekki heldur að standa í skilum við starfsmenn sína sem í framhaldi af því gátu ekki greitt skuldir sínar í bönkum og sjóðum. Nákvæmlega þannig er kreppa. En landsfeðurnir sáu leið út úr ógöngunum. Risastórt álver á Keilisnesi mundi snúa vörn í sókn. Fram yfir mitt ár var lifað í voninni. Í árslok var þó ljóst að sá glæsti draumur mundi ekki rætast í bráð. Þar við bættist lækkandi fiskverð. Kreppunni væri hreint ekki að létta. Útlitið var sannarlega dökkt, samanber þessa fyrirsögn: Ísland gjaldþrota upp úr aldamótum. En þrátt fyrir slagsíðuna tókst stjórnmálamönnunum furðanlega að stíga ölduna á þilfari þjóðarskútunnar. Pólitískir kossar tóku að tíðkast eins og sjá má á einni fréttamynd ársins. Þannig leiftraði einn og einn kærleiksglampi gegnum skugga vonbrigðanna. Allt um það er Íslenskur annáll hvorki hagsaga né stjórnmálasaga. Nær er að segja að þetta sé dægurmálasaga; útdráttur úr fjölmiðlunum frá degi til dags. Þess vegna er sagt frá gangi mála eins og þau blöstu við á hverjum tíma án hliðsjónar af framhaldi. Lesandinn á ekki að sjá fram í tímann fremur en þar og þá. Mikið er lagt í frásagnir af einkamálum, svo og af samskiptaerfiðleikum borgaranna. Af þess konar fréttum að dæma var sjaldan friðvænlegt, hvorki á götum úti, í húsum inni né í hugarfylgsnum þjóðarsálarinnar. Persónuleg deilumál geta naumast talist annálsverð hvert fyrir sig. En samanlagt segja þau mikið um þjóðfélagsástand og tíðaranda. Mannlegt samfélag er í eðli sínu mótsagnakennt. Og ekki sýnist reynslan vera áhrifamikill kennari því sams konar vandamál eru alltaf að endurtaka sig, dag eftir dag og ár eftir ár. Þess vegna getur ein svona árbók virst vera nánast endurtekning fyrri bóka. Enda þótt annáll þessi veiti nokkurt sýnishorn af þrasgirni Íslendinga, sem er síbreytileg eins og veðrið en þó alltaf söm og jöfn, er öllu slíku stillt þolanlega í hóf, flestum lesendum til léttis að ætla má. Margur lifir frá degi til dags, horfir hvorki fram né aftur og eyðir áður en aflað er. Og þannig leið líka árið 1990 í aldanna skaut, tók við vandamálum og skildi eftir sams konar vandamál. Minna segir af árferði beinlínis. Samt þótti tíðindum sæta að dag einn í júlí fór hitinn yfir tuttugu stig í Reykjavík. Slíkur hiti hafði þá ekki mælst hér í tíu ár. En níundi áratugurinn var fádæma kaldur og illviðrasamur. Nýkrónan, sem tekin var upp í ársbyrjun 1981, féll í kapp við hitastigið. Þar til á umræddu ári að loks virtist hægja á fallinu samanber síðustu frétt ársins: Minnsta rýrnun nýkrónu. Hvort þakka bar hækkandi gengi hugarfarsins eða gengistryggingum lána þannig að ekki var lengur hægt að græða á verðbólgunni ­ það skal ósagt látið. En mál var að linnti því eftir áratuginn stóð aðeins eftir tæpur tíundi hluti upphaflegs verðgildis nýkrónunnar. Þó þegnarnir væru stöðugt að lýsa yfir óánægju með ástand mála virtist margur fella sig þolanlega við hvort tveggja, land sitt og þjóðerni. Vegna stærðar landsins finnur Íslendingurinn ótrúlega lítið fyrir smæð sinni. Og af stærð bókar þessarar mætti ætla að hér hafi gerst bæði margt og mikið á því herrans ári 1990. Það er nú svo. Erlendur Jónsson Þorgrímur Getsson