Helgi Ingólfsson, Mál og menning, Reykjavík, 1998, 235 bls. ÞÆGIR strákar er þriðja skemmtisagan úr Reykjavík samtímans sem Helgi Ingólfsson sendir frá sér, þversumman af hinum tveimur í þeim skilningi að í verkinu eru leiddar saman tvær aðalpersónur bókanna sem á undan hafa komið.
Reykjavík dulbúin BÆKUR

Skáldsögur ÞÆGIR STRÁKAR

Helgi Ingólfsson, Mál og menning, Reykjavík, 1998, 235 bls. ÞÆGIR strákar er þriðja skemmtisagan úr Reykjavík samtímans sem Helgi Ingólfsson sendir frá sér, þversumman af hinum tveimur í þeim skilningi að í verkinu eru leiddar saman tvær aðalpersónur bókanna sem á undan hafa komið. Kennarinn Jóhannes og rithöfundurinn Gissur búa undir sama þaki en þekkjast þó ekki í byrjun sögunnar. Gissur er að súpa seyðið af því að hafa skrifað unglingaskáldsöguna Þægar stelpur sem ýmsir, þar á meðal sálfræðingurinn Anna Lísa Mogensen, telja að hafi hrundið af stað sjálfsmorðsbylgju meðal stelpna á unglingsaldri. Á tímabili lítur út fyrir að Þægir strákar ætli að velta fyrir sér ábyrgð rithöfunda og möguleikanum á beinum áhrifum skáldskapar á veruleika. Ekki er þó tekist á við spurninguna af neinni alvöru, enda er Þægir strákar skemmtisaga. Hinsvegar fer verkið ekki að rísa undir nafni sem skemmtisaga fyrr en eftir um 90 blaðsíður og á þá enn eftir langan kafla þar sem sitja saman til borðs leikhúsgagnrýnendur sem eru kunnuglegir úr samtímanum þó þeir séu hér með rauð nef og önnur nöfn. Talsvert er um þekktar persónur úr samtímanum, hugsunin sú að hægt sé að skemmta sér við að bera kennsl á þær. Þessi eftirhermuleikur gengur ekki alltaf upp og á oft betur heima í Spaugstofunni sem þar að auki er búin að mjólka safann úr mörgum persónum. Þó er gaman þegar verkið fer að vísa í sjálft sig og fyrri verk höfundar og þegar maður að nafni Helgi hringir í rithöfundinn Gissur. Í fyrstu lifa kennarinn og rithöfundurinn ótengdu, samsíða lífi, koma úr ólíkum áttum að sjálfsmorðum stúlkna sem lesið hafa bók Gissurar. Sálfræðingurinn Anna Lísa lætur mikið að sér kveða í því máli og hún er sú persóna bókarinnar sem er hreinræktuð klisja og það án þess að vera neitt hlægileg. Fjörið byrjar ekki fyrr en Jóhannes og Gissur kynnast loksins. Við taka hrakningar þeirra tveggja, þvælingur um miðbæinn og út á land. Farsinn nær hraða sínum. Unnið er á meðvitaðan hátt með klisjuna; vörubílstjóri lifir sig inní þjóðvegastemmninguna og pælir í geimverum, tannhvöss tengdamamma sem talar hálfgerða dönsku kaupir sér tölvu, unglingar taka höndum saman um að hefna sín á rithöfundinum; samfélagssýn þeirra og sjálfsmynd er kostuleg samsuða uppúr vaðli fjölmiðla. Fagurfræðin í verkinu er ekkert ósvipuð fagurfræði höfundar Þægra stelpna . "Ég lít þannig á," segir Gissur, "að frásögnin muni lifa af sér allan módernisma og póstmódernisma og hvaða merkimiða sem settir eru á bókmenntir. Fólk vill fá sögur, en ekki endalausar hugleiðingar um lífið og tilveruna, stundum fallegar, en oftast gagnslausar." "Það sem ég held að lifi alltaf er epíkin. Frásögnin sjálf" (116). Reyndar minnir sena þar sem unglingar gera aðsúg að heimili Gissurar á síðustu skáldsögu Ólafs Gunnarssonar sem líklega hefur gengið einna lengst íslenskra rithöfunda í að endurreisa hina stóru epísku skáldsögu sem er full af ólíkindum og stórviðburðum að hætti Dostojevskís. Stíll Þægra stráka hefur hraðann en er stundum klaufalegur og bókin er vel hálfnuð áður en byrjað er að bruðla almennilega með atburði og hugmyndir. Þá koma prýðis sprettir með sjálfsávísunum og útúrdúrum í frásögn. Aukapersónur ná að lifna og skapa góða kómedíu. En Þægir strákar hefðu mátt vera óþægari. Hermann Stefánsson Helgi Ingólfsson