UM ÁRABIL hefir blasað við öllum heilskyggnum mönnum ótrúlegt misrétti, sem stjórnvöld hafa beitt þegnana með framkvæmd fiskveiðilaganna. Það þurfti engan Hæstarétt til að segja sanngjörnum mönnum til um óbilgirni laganna og þeirra sem þau framkvæmdu. Auður allrar þjóðarinnar var tekinn og mulinn undir örfáa menn með hörmulegum áhrifum nú þegar, en ólýsanlegum þegar fram líða stundir.
Með ólíkindum
Eins og sakir standa,
segir Sverrir Hermannsson , virðist allt horfa til aukins ófriðar í landinu.
UM ÁRABIL hefir blasað við öllum heilskyggnum mönnum ótrúlegt misrétti, sem stjórnvöld hafa beitt þegnana með framkvæmd fiskveiðilaganna. Það þurfti engan Hæstarétt til að segja sanngjörnum mönnum til um óbilgirni laganna og þeirra sem þau framkvæmdu. Auður allrar þjóðarinnar var tekinn og mulinn undir örfáa menn með hörmulegum áhrifum nú þegar, en ólýsanlegum þegar fram líða stundir. En þegar æðsti dómstóll þjóðarinnar hefir nú staðfest eldri dóm þorra manna bregður nýrra við, sem engan gat grunað. Forystumenn framkvæmdavaldsins, formenn stjórnarflokkanna, bregðast við með ólíkindum. Formaður þess stærri finnur sér fyrst til að dómurinn hafi ekki verið nógu fjölskipaður, en síðar að túlka beri dóminn mjög þröngt, sem virðist merkja á hans máli að snúa megi út úr honum, sem og er gert með framlögðu frumvarpi ríkisstjórnar. Hinn formaðurinn telur dóminn þann veg vaxinn, að nærtækast sé að breyta stjórnarskránni. Sá sem hér heldur á penna hélt fyrst, að honum hefði misheyrzt, en svo reyndist því miður ekki, enda eru ungir framsóknarmenn komnir í stellingarnar. Um þessi viðhorf þarf ekki að fara mörgum orðum. En velji þjóðin áfram menn til forystu, sem haldnir eru slíkum órum, er hún í háska stödd. Slíkur valdhroki er alveg óþekktur á Íslandi eftir að einveldi lauk. Skemmst er að minnast vinnubragða ríkisstjórnar vegna hinna svonefndu hálendislaga á liðnu vori. Þá hafði hún að engu viðhorf og vilja mikils meirihluta þjóðarinnar og allra málsmetandi félagasamtaka í landinu. Nú stendur fyrir dyrum Alþingis að afgreiða einhvern ömurlegasta gerning, sem um getur í sögu þess: Einkaleyfi til handa útlendingum. Erfðagreining er áreiðanlega hið mikilvægasta mál, heilbrigðismál, atvinnumál og fjárhagsmál. En einkaleyfi til handa erlendum auðmönnum er fullmikið af því góða. Á hinn bóginn mun íslenzki bankamálaráðherrann sóma sér hið bezta í þeirra hópi, þessi sem á liðnu sumri var nærri búinn að selja Wallenbergum í Svíþjóð stærsta banka Íslands. Eins og nú standa sakir í skoðanakönnunum mun hann enda fá til þess fullt umboð í næstu kosningum að halda áfram bankaiðju sinni, í skjóli Sjálfstæðisflokksins, og öðrum ábatasömum viðskiptum vegna vina og vandamanna, að ógleymdum stóriðjuhöldum heims, sem vantar ómengaða náttúru að reisa ver sín í. Allt er þetta með hinum mestu ólíkindum. Eins og sakir standa virðist allt horfa til aukins ófriðar í landinu. Þolinmæði þeirra sem mest er níðst á í fiskveiðimálum er á þrotum. Þessu verða ráðamenn að gera sér grein fyrir hið fyrsta ef ekki á verr að fara. Á hinn bóginn er ekki mikil von um að úr rætist ef stærsti flokkur þjóðarinnar heldur svo fram eindreginni frjálshyggjustefnunni, sem raun ber vitni, og fær til þess nægjanlegt fylgi kjósenda. En þá má auðvitað segja að svo liggi hver sem lund er til. Höfundur er fv. bankastjóri og formaður Frjálslynda flokksins. Sverrir Hermannsson