Eftir Yrsu Sigurðardóttur. Mál og menning, 1998 ­ 139 s. VIÐ hittum söguhetjuna á lögreglustöðinni. Hún er í yfirheyrslu og er að reyna að útskýra fyrir lögreglunni aðdragandann að furðulegri handtöku sem átt hefur sér stað í hjarta Reykjavíkurborgar.

Danadrottning í lífsháska

BÆKUR

Barnabók

ÞAR LÁGU DANIR Í ÞVÍ

Eftir Yrsu Sigurðardóttur. Mál og menning, 1998 ­ 139 s. VIÐ hittum söguhetjuna á lögreglustöðinni. Hún er í yfirheyrslu og er að reyna að útskýra fyrir lögreglunni aðdragandann að furðulegri handtöku sem átt hefur sér stað í hjarta Reykjavíkurborgar. Lögreglan á greinilega erfitt með að átta sig á því hvernig í ósköpunum þetta gat gerst og litla söguhetjan þarf að rekja alla sólarsöguna til þess að hægt sé að fá botn í málið. Og hún dregur ekki af sér og byrjar skýrsluna með sinni eigin fæðingu í strætisvagni fyrir tólf árum. Sögusviðin eru tvö, hið raunverulega þar sem atburðirnir gerast og svo lögreglustöðin þar sem samskiptin milli Glódísar og löggunnar eiga sér stað. Glódís býr hjá mömmu sinni sem er í hæsta máta sérkennileg, spáir í spil og sér í þeim hættu sem vofir yfir erlendum gestum. Besti vinur Glódísar er Palli sem fæddist með aðeins einn fót. Annað fólk kemur við sögu svo sem pabbi sem er bílasali, pabbi Palla sem vill að hann fái nýjan gervifót, amma með mávastellið og hin amman sem ætti að fá Nobelsverðlaun í þolinmæði og afi sem þjáist af Alzheimer, að ógleymdum bjórþyrsta páfagauknum, svo nokkrir séu nefndir. Sagan um veislu Danadrottningar er alger dellusaga en bráðfyndin. Inn í hana er fléttað ótrúlegustu samsetningum, gervifæti og rauðum háhæluðum skó, mávastelli ömmu og heilsulyfjum mömmu. Höfundur er hugmyndaríkur og setur saman ólíklegustu hluti og leiðir svo alla þátttakendurna saman í Ráðherrabústaðnum við Tjörnina þar sem atburðirnir skelfilegu eiga sér svo stað. Textinn og málfarið er lipurt og gott og flæði sögunnar er ágætt. Sagan er sögð af einlægni þátttakandans í allri vitleysunni sem segir löggunni frá ef henni hefur þótt hlutirnir hafa farið eins og hún vildi, eða ef framvinda málsins var ekki í samræmi við hennar fyrirætlanir. Þetta er saga úr Reykjavíkurlífinu þar sem hið ótrúlegasta verður raunverulegt og misskilningurinn verður aðalatriðið eins og í teiknimynd. Lögmál hins ótrúlega eru hér við lýði. Öll atvik sögunnar eru sett fram á mjög myndrænan hátt svo sagan öll er í ætt við teiknimynd þar sem allt getur gerst. Sigrún Klara Hannesdóttir

Yrsa Sigurðardóttir