eftir Sigríði E. Sigurðardóttur og Gunnlöðu Jónu Rúnarsdóttur.36 síður.Mál og menning, Reykjavík 1998. GÖNGUFERÐ með Krumma er byggð á afar skemmtilegri hugmynd: Krummavísum er safnað saman og síðan er saga prjónuð í kringum þær. Flestar eru vísurnar kunnuglegar og er sérstaklega ánægjulegt að sjá þarna Krummavísur Jóns Thoroddsen sýslumanns.
Snjöll og skemmtileg hugmynd
BÆKURBarnabók
GÖNGUFERÐ MEÐ KRUMMA
eftir Sigríði E. Sigurðardóttur og Gunnlöðu Jónu Rúnarsdóttur. 36 síður. Mál og menning, Reykjavík 1998.
GÖNGUFERÐ með Krumma er byggð á afar skemmtilegri hugmynd: Krummavísum er safnað saman og síðan er saga prjónuð í kringum þær. Flestar eru vísurnar kunnuglegar og er sérstaklega ánægjulegt að sjá þarna Krummavísur Jóns Thoroddsen sýslumanns. Í sögunni er lítill snáði úr vesturbæ Reykjavíkur í berjamó alla leið austur á Vatnsendahæð. Systir hans og vinkona hennar hafa gleymt honum og hann ratar ekki heim. Málglaður krummi verður síðan á vegi hans og segir honum krummavísurnar allt þar til mál er komið að finna leiðina til baka heim. Söguþráðurinn í bókinni er frekar losaralegur og í sjálfu sér ekki mjög spennandi. Það er til að mynda ekki gert mikið með það að litli drengurinn Loki, önnur af söguhetjum bókarinnar, tínir lambaspörð í stað berja, og þó er þar tækifæri til að byggja upp ofurlitla dulúð. Yfirleitt skýra vísurnar sig sjálfar en sumar þeirra eru þó allflóknar og jafnvel á fornu máli. Ástæða hefði verið til að skýra þær aðeins nánar út í textanum, bæði fyrir Loka og fyrir lesendum, sem eðli málsins samkvæmt eru alla jafna ungir að árum. Ekki er hægt að ganga út frá því að allir fullorðnir lesendur búi yfir þeirri þekkingu að geta útskýrt þær fyrir börnunum. Bókin er myndskreytt af 5 ára gamalli telpu, Gunnlöðu Jónu Rúnarsdóttur. Það gerir hún með bæði stórum og smáum, listavel gerðum myndum auk þess sem hún teiknar fyrsta bókstafinn á hverri síðu. Myndir Gunnlaðar Jónu eru sérstaklega heillandi og auka mjög gildi bókarinnar.
Það hefði verið snjallt að geta höfunda eða uppruna krummavísnanna einhvers staðar í bókinni t.d. í sérstakri skrá aftast. María Hrönn Gunnarsdóttir