Hvað gerðist?
BÆKUR
Unglingasaga
AÐGÁT SKAL HÖFÐ
Eftir Þorstein Marelsson. Mál og
menning, 1996 152 s.
HANN er fimmtán ára og situr hjá sálfræðingi sem reynir að fá hann til að tala um það sem gerðist. Smátt og smátt finnum við að eitthvað hræðilegt hefur gerst sem veldur því að hann er í nokkurs konar stofufangelsi. Þetta er í raun góður strákur en spurningarnar eru margar og svörin fá. Og það sem gerðist er svo alvarlegt að enginn getur talað um það. En svo tekur hann þá ákvörðun að strjúka úr fangelsinu, en hvert getur hann farið og hver er í rauninni tilgangurinn með flóttanum? Strákurinn er reyndar kallaður Dóri og hann á nokkra vini en þeir eru fjarlægir. Hann er hrifinn af Önnu en hún er honum líka fjarlæg.
Foreldrarnir eru alltaf að fórna sér fyrir hann en fjölskyldumeðlimir eru samt ekki í neinu sambandi hver við annan enda annríkið mikið og allir á kafi í sínum áhugamálum. Dóri er lokaður og getur ekki eða vill ekki segja sálfræðingnum hvað hefur gerst. Hann svarar með eins atkvæðis orðum eða snýr út úr spurningum sálfræðingsins og sáli segir að hann sé trúður sem hlær þegar hann á að gráta og öfugt. Eftir fundina með sálfræðingnum er hvorki sáli né lesandinn nokkru nær. En Dóri þarf að létta á samviskunni og segja frá hlutunum frá sínum eigin sjónarhóli og það getur hann loks með því að skrifa vini sínum, Eika sem er á Akureyri. Fyrst þarf Dóri að fá svar til að halda áfram með söguna en að lokum er þörf hans fyrir að fá útrás nægileg og hann kemur öllum málsatvikum frá sér.
Í raun er sögupersónan aðeins ein, Dóri, og við kynnumst honum býsna vel.
Honum er þannig lýst að lesandinn fær samúð með honum þrátt fyrir að hægt sé að sjá að hann er á hættulegri braut og hefur misstigið sig illilega.
Hann er fyrst og fremst leitandi sál sem hvergi finnur það sem hann leitar að. Lesandinn fær lítillega að kynnast Stellu sem hýsir hann þegar hann flýr, en aðrar persónur eru aðeins skuggamyndir.
Þessi saga er mjög vel fléttuð. Höfundur heldur öllum þráðum sögunnar í hendi sér og smátt og smátt fær lesandi heildarmynd af því sem kvelur Dóra, annars vegar í bréfum Dóra og hins vegar í þeim litlu samtölum sem hann á við sálfræðinginn og Stellu. Höfundur leikur sér að því að raða brotunum saman eins og í púsluspili og loks verður myndin skýr og lesandinn skilur loks hvernig í öllu liggur. Sagan er því spennandi á sinn hátt og lesandinn getur ekki hætt lestri fyrr en hann er búinn að finna út hvað hefur gerst og af hverju. Endirinn er jákvæður og það örlar á bjartsýni að vissu marki án þess þó að vandamálin hafi verið leyst á einhvern ódýran hátt.
Kápumyndin er skelfilega ljót og ósmekkleg. Vonandi spillir hún ekki fyrir bókinni sem er bæði vel skrifuð og fjallar um efni sem er mjög tímabært.
Sigrún Klara Hannesdóttir
Þorsteinn Marelsson