BÓKMENNTIR á íslensku frá hinni fjarlægu og dularfullu heimsálfu Ástralíu ber ekki fyrir augu okkar á hverjum degi. Ljómi stafar af Ástralíu í hugum okkar hér á norðurhjaranum, enda eyddi sá margfrægi maður Jörundur hundadagakonungur þar ævikvöldinu eins og við vitum.

Ástir miðaldra kvenna

BÓKMENNTIR á íslensku frá hinni fjarlægu og dularfullu heimsálfu Ástralíu ber ekki fyrir augu okkar á hverjum degi. Ljómi stafar af Ástralíu í hugum okkar hér á norðurhjaranum, enda eyddi sá margfrægi maður Jörundur hundadagakonungur þar ævikvöldinu eins og við vitum. Nú hefur Rúnar Helgi Vignisson gerst vitorðsmaður Jörundar, og reyndar bætt um betur með kynningum sínum og þýðingum á bókmenntum andfætlinga okkar undanfarin ár. Nú nýlega kom út bráðsmellin skáldsaga Fröken Peabody hlotnast arfur eftir Elizabeth Jolley í þýðingu Rúnars Helga. Sagan segir frá ýmsum óvæntum uppákomum. En hver er Elizabeth Jolley?

"Elizabeth Jolley fluttist til Ástralíu árið 1959, til borgarinnar Perth. Mér finnst hún mjög upptekin af þessum flutningum og hún staðsetur sjálfa sig og persónur sínar oft í þessum sporum. Persónur hennar flakka mikið milli Evrópu og Ástralíu og hún er býsna upptekin af því að skilgreina stöðu sína í heiminum. Það finnst mér eitt af megineinkennum hennar sem höfundar! Náttúra Ástralíu er mjög ólík því sem Evrópubúar eiga að venjast, og svo kemur vestræn menning eins og skrattinn úr sauðarleggnum inní þessa náttúru og ruglar myndina. Áströlum hefur oft verið borið það á brýn að eiga sér enga menningu, eða bókmenntir sem standi undir nafni, enda skírskotar Jolley mjög í evrópskan menningararf í skrifum sínum. Þó er hún ekki mjög fræðilegur höfundur, persónur hennar og samskipti þeirra í millum eru höfuðatriðið í verkum hennar. Sérstaða Ástrala sem bókmenntaþjóðar felst meðal annars í því að þeir skrifa á máli ríkrar hefðar inn í hefðarleysi þjóðlands sem Patrick White, eini Nóbelsverðlaunahafi þeirra í bókmenntum, kallaði "hið mikla ástralska eyðiland". Þess vegna gætir enn frumherjaanda í bókmenntum andfætlinga okkar og enn leita þeir sjálfsmyndar í landslagi sem lengi vel rímaði ekki við tungumálið. Því finnst mér þessi skírskotun til vestrænnar menningar í sögu Jolley, mynda hið víðara samhengi bókarinnar. Sagan fjallar að öðru leyti um miðaldra konu í Lundúnum sem býr í mikilli einangrun. Hún tekur uppá því að skrifa ástralskri skáldkonu bréf, en skáldkonan heillar hana af því að hún bregður upp myndum af svolítið framandi og munúðarfullum heimi. Svo gerist það, konunni til mikillar furðu, að skáldkonan fer að svara bréfum hennar og senda henni heilu kaflana úr skáldsögu sem hún vinnur að. Þarna sjáum við vel, hvernig skáldskapur getur haft áhrif á líf okkar! Miðaldra piparjónkan lifnar öll við, en kryddið óvenjulega í þessari bók er ástir kvenna. Meira að segja ástir miðaldra kvenna sem ekki eru mjög algengar í bókmenntum. Kannski er þetta skýringin á því hversu Ástralir voru lengi að taka á móti Elizabeth Jolley á sínum tíma."

Þetta eru fjarlægar slóðir! Hvernig kom Ástralía þér fyrir sjónir?

"Ástralía virkaði á mig sem hálfgert undraland. Maður var svolítið eins og Lísa í Undralandi í dálítinn tíma. Konan mín fékk styrk til að fara til náms í Ástralíu árið 1991. Við dvöldum í tæpt ár í borginni Perth þar sem Jolley býr og vorum svo lánsöm að vera mjög fljótlega kynnt fyrir þessari konu. Í fyrstu virkaði hún sem vinaleg og snaggaraleg amma, en ekki einn af virtustu og vinsælustu höfundum Ástralíu. En þessi hnellna, skemmtilega og heillandi kona hefur svo sannarlega óvenjulega sýn á mannlífið og sú sýn birtist með skýrum hætti í bókum hennar."

Umkringd leifum af humri og ljúffengu salati kveikir fröken Thorne í einum af svörtu smávindlunum sínum. Hún hefur vanrækt þá upp á síðkastið.

"Koníak, mín kæra?"

"Nei, þakka þér, Prickles. ðEg þarf að ávarpa nýju hjúkrunarnemana klukkan fjögur."

"Það er nægur tími, mín kæra."

"Jæja, kannski pínulítið þá."

"Niður um lúguna!"

Það er orðið heitt á skrifstofunni, það gerir líflegur eldurinn. Kærkomið regn streymir niður gluggann að utanverðu.

"En þegar, ég spyr þig, en þegar hjónarúmið verður að sjúkrarúmi, hvað þá?"

"Mjög leikrænt, Prickles. Ég býst við að það stafi af bókmenntalegum tilhneigingum þínum, bókmenntaáhuga þínum."

"Snow! Tugga af verstu gerð!"

"Já, Prickles. Fyrirgefðu! En í alvöru talað, þá getur hjónarúmið verið sjúkrarúm eða jafnvel autt rúm, hvað sem aldri eða aldursmun líður. Og sú er oft raunin á lífsleiðinni."

Úr Fröken Peabody hlotnast arfur

Elizabeth Jolley

Rúnar Helgi Vignisson