Kórallar og kóralrif
BÆKUR
Barnabók
REGNSKÓGAR HAFSINS
Eftir Lars Thomas. Myndir: Johannes Bojesen. Þýðing: Gissur Ó. Erlingsson. Skjaldborg, 1998 45 s.
FRÆÐIBÆKUR fyrir íslensk
börn hafa verið af skornum skammti alla tíð og skortur á efni sem getur svalað forvitni ungra lesenda. Nú hefur Skjaldborg gefið út nokkrar þýddar bækur fyrir börn og fjalla þær flestar um þætti úr dýralífinu.
Í þessari bók eru kóröllum og kóralrifum gerð skil. Þetta er á margan hátt góð fræðibók og veitir miklar upplýsingar um efnið. Birt er kort af kóralsvæðum heimsins, lýst er kóröllum sem náttúrufyrirbrigði og lífsháttum þeirra. Sýnd eru mismunandi kóralrif og hvernig þau hafa orðið til. Lýst er mismunandi tegundum kóralla og hvaða gagn megi af þeim hafa. Nafn bókarinnar er dregið af því fjölskrúðuga lífi sem lifir í nábýli við kórallana.
Einnig eru skemmtilegar frásagnir af samskiptum manna við þessi fyrirbrigði. Má þar fyrst nefna James Cook landkönnuð sem strandaði skipi sínu "Endeavour" fyrir utan strendur Ástralíu árið 1770 er hann óvænt rakst á kórallarifið fræga, Great Barrier Reef, sem risti sundur botninn á skipi hans.
Einnig er sagt frá leiðangri Charles Darwin á skipi sínu "Beagle" sem lagði upp frá Englandi árið 1831 og rannsóknum hans á kóröllum í þeim leiðangri.
Var Darwin meðal annars að reyna að átta sig á því hvernig kóralrif og kóraleyjar verða til.
Myndirnar eru í litum, textinn er látlaus og öll heiti íslenskuð. Meira að segja er komið íslenskt heiti á Great Barrier Reef "Virkisgarðsrifið mikla".
Í bókinni er atriðisorðaskrá sem vísar í blaðsíðutal og getur bókin því gagnast í kennslu á fyrstu stigum upplýsingaleikninnar þar sem ungir nemendur átta sig á einföldum leiðum að upplýsingum þeim sem bókin geymir.
Sigrún Klara Hannesdóttir