Eftir Stefan Casta og Staffan Ullström. Ísl. þýð.: Atli Magnússon Skjaldborg, 1998 ­ 72 s. Í BÓKINNI er fjallað um helstu húsdýr nútímans og rakin saga þeirra frá þeim tíma er þau voru villt og hvernig er talið að þau hafi komist í þjónustu mannsins. Fyrst er rakin saga hundsins aftur til forfeðra hans, úlfanna.

Forsaga

húsdýranna

BÆKUR

Barnabók

ÞEGAR DÝRIN LIFÐU FRJÁLS

Eftir Stefan Casta og Staffan Ullström. Ísl. þýð.: Atli Magnússon Skjaldborg, 1998 ­ 72 s. Í BÓKINNI er fjallað um helstu húsdýr nútímans og rakin saga þeirra frá þeim tíma er þau voru villt og hvernig er talið að þau hafi komist í þjónustu mannsins. Fyrst er rakin saga hundsins aftur til forfeðra hans, úlfanna. Önnur dýr sem fjallað er um eru sauðfé, geitur, kýr, svín, hestar, kettir, gæsir, dúfur, hænsn, býflugur, endur, hreindýr, kanínur, páfagaukar og hamstrar. Hverju dýri eru gerð góð skil þar sem gefnar eru upp staðreyndir um einkenni og notagildi hvers dýrs, ólíkar tegundir, hverjir eru forfeður dýrsins, hvaðan það kom fyrst, elsti beinafundur þar sem það á við, gömul heiti, þjóðtrú tengd dýrunum og oft er sérstök fyrirsögn um það sem gaman er að vita, t.d. hvert er nafn kattarins á ólíkum tungumálum, eða þá staðreynd að kýr voru notaðar sem mælikvarði á auðsæld manna áður fyrr. Litmyndir prýða bókina þar sem sýnd eru ólík afbrigði hverrar tegundar. Þýðingin á bókinni hefði mátt vera liprari. Mikið er notaður greinir svo sem: "Hin heillandi saga dýranna okkar" (s. 7), Sléttuféð ­ hið fullkomna húsdýr" (s. 16), Villihesturinn ­ hið frábæra samgöngutæki" (s. 33) Þetta er tilgerðarlegt og passar illa við þann texta sem hér er þýddur. Nokkur önnur dæmi um hnökraða þýðingu má nefna svo sem "Þessi bók hefst fyrir ákaflega löngu" (s. 7). Mín máltilfinning segir að það sé ekki bókin sem hefst fyrir 12.000 árum heldur er það forsaga dýranna. Annað dæmi um kynduga málnotkun kemur fyrir á s. 9. "En hvað um okkur? Nú, við æðum áfram. Við stundum æ öflugri rannsóknir í því skyni að fá fram "betri kyn". Velta má vöngum yfir hve langt við ætlum að ganga. Hvert verður næsta skref." Eflaust er þýðanda þarna nokkur vandi á höndum að koma á framfæri viðhorfi höfundar til kynbóta en til þess að textinn falli vel að íslensku máli þarf oft að umsegja hann í stað þess að þýða hann beint. Það sama gildir um lokakaflann þar sem höfundar segja frá efnisöflun sinni í fyrstu persónu. Hér hefði farið miklu betur á að hafa þýddu frásögnina í þriðju persónu þar sem lýst var leiðum "þeirra" en ekki "okkar" til að afla efnis í bókina. Í bókarlok er sérstakur kafli sem heitir: Heimildir um húsdýrin. Því miður er aðeins getið um tvær erlendar bækur en titill þeirra gefinn á íslensku. Ekki er minnst á þá gullfallegu íslensku bók sem Stefán Aðalsteinsson tók saman um húsdýrin okkar. Bók Stefáns fer að vísu ekki eins langt aftur í tímann og þessi bók, en ef menn eru með sérstaka kafla um heimildir ætti þeim að vera skylt að geta þeirra rita sem til eru á íslensku og falla að efni bókarinnar. Erlendar bækur sem ekki eru til á Íslandi eru ekki til neins gagns fyrir þann lesendahóp sem þessi bók á að höfða til. Engin atriðisorðaskrá fylgir ritinu, en efnisyfirlit. Sigrún Klara Hannesdóttir