Jólakveðjur lögreglu til glæpamanna Kaupmannahöfn. Morgunblaðið. INNBROT um jólin eru vandi í Danmörku eins og víðar, en nú hefur lögreglan í Glostrup, útborg Kaupmannahafnar, látið krók koma á móti bragði.
Jólakveðjurlögreglu til
glæpamanna Kaupmannahöfn. Morgunblaðið. INNBROT um jólin eru vandi í Danmörku eins og víðar, en nú hefur lögreglan í Glostrup, útborg Kaupmannahafnar, látið krók koma á móti bragði. Eftir að hafa tekið saman lista yfir þrjátíu ötulustu þjófa staðarins, fengu þeir sem á listanum lentu bréf frá lögreglunni, þar sem þeim var sagt að þeir væru á listanum. Um leið voru þeir vinsamlegast beðnir um að halda að sér höndunum um jólin. Sumir hafa tekið kveðjunni vel, aðrir hafa sent bréfið til lögfræðinga sinna. Bréfið til glæpamannanna er liður í herferð lögreglunnar til að draga úr innbrotum og þjófnuðum um jólin. Verður listinn notaður af lögreglumönnum, sem hafa bæði hann og myndir af þeim 30 ötulustu í bílum sínum. Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa, að sögn lögreglunnar. Sumir náunganna á vinsældalistanum hafa lýst hrifningu sinni, aðrir hafa verið reiðir og nokkrir í efstu sætunum hafa látið lögfræðinga sína hafa bréfið til að athuga hvort lögreglan sé með því að troða á lagalegum rétti þeirra.