Heftir sig ekki með takmörkum
"ÉG veit aldrei við hverju á að búast frá Erni. Hann heftir sig ekki
með takmörkum, heldur trúir á möguleika og það opnar margar dyr fyrir sundmenn. Hann náði góðum tímum í 50 metra baksundi fyrir mótið og virðist vera í mjög góðu formi. Ég ætla þó engu að spá um framhaldið, heldur mun ég láta hann um að sýna mér hvað í honum býr," sagði Brian Marshall, hinn enski þjálfari Sundfélags Hafnarfjarðar, í viðtali við Morgunblaðið eftir bikarkeppni Sundsambandsins á dögunum.
Brian Marshall, sem hefur verið þjálfari hjá SH í rúm tvö ár, segir Örn hafa sýnt að hann sé einn sá besti í heiminum í baksundi. "Á Evrópumóti unglinga í ágúst komu margir til mín og lýstu hrifningu sinni á honum. Örn getur gert hluti í vatninu sem aðrir eru ekki færir um. Hann getur komið sér í þannig stöðu að vatnið vinni með honum, ekki á móti. Hann er mjög hæfileikamikill íþróttamaður og verður að hafa samkeppni og því harðari sem keppnin er, því betur bregst Örn við.