NOTENDUR greiða raunverulegan kostnað við hafnaþjónustu í Reykjavík, bæði hvað varðar rekstrarkostnað og fjárfestingar. Flestar aðrar hafnir landsins njóta hins vegar ríkisstyrkja við hafnargerð og endurbætur en meginreglan virðist þó vera sú að láta tekjur standa undir rekstrarkostnaði.
ÐTekjur hafna standa

undir rekstrarkostnaði

NOTENDUR greiða raunverulegan kostnað við hafnaþjónustu í Reykjavík, bæði hvað varðar rekstrarkostnað og fjárfestingar. Flestar aðrar hafnir landsins njóta hins vegar ríkisstyrkja við hafnargerð og endurbætur en meginreglan virðist þó vera sú að láta tekjur standa undir rekstrarkostnaði.

Hannes Valdimarsson, hafnarstjóri í Reykjavík, segir að í meginatriðum sé jafnvægi milli tekna og gjalda þeirrar þjónustu sem Reykjavíkurhöfn veitir. "Höfnin veitir margvíslega þjónustu, útvegar hafnsögumenn, dráttarbáta, festarþjónustu og sér um afgreiðslu vatns og rafmagns til skipa. Sérstök rekstrardeild, Hafnarþjónustan, annast þessa þjónustu og miðað er við að hún standi undir sér. Þá kostar Reykjavíkurhöfn allar fjárfestingar og endurbætur af eigin aflafé. Við notumst við sérstakar aðferðir til að reikna út raunverulegan kostnað við þjónustu og styðjumst við þær þegar hafnargjöld eru reiknuð út."

Höfnin sér því um beina þjónustu við skip en öll vöruþjónusta er hins vegar í höndum einkaaðila að sögn Hannesar. "Stefna Reykjavíkurhafnar er sú að eiga hafnarmannvirkin og landið og leigja þau út en eftirláta einkaaðilum alla þjónustu í sambandi við vöruflutninga. Það er misjafnt hvernig þessu er farið í Evrópu en víðast hvar er þróunin í þessa átt. Að þessu leyti erum við lengra á veg komin í þessari þróun en margir aðrir," segir Hannes.

Margar hafnir njóta ríkisstyrkja vegna fjárfestinga

Már Sveinbjörnsson, framkvæmdastjóri Hafnarfjarðarhafnar, segir að tekjur hafnarinnar standi undir rekstrarkostnaði en nokkuð öðru máli gegni hins vegar um fjárfestingar, nýframkvæmdir og endurnýjun. "Hingað til eða a.m.k. til 1997 höfum við t.d. notið ríkisstyrkja til hafnargerðar að einhverju marki. Notendur borga því ekki raunverulegan kostnað við hafnarmannvirki en tekjur standa hins vegar undir rekstrarkostnaði."

Evrópusambandið vinnur nú að stefnumótun á sviði hafnamál og er m.a. rætt um að notendur standi í auknum mæli undir fjárfestingu og rekstri hafna. Már segir ljóst að þessi stefnumótun geti haft veruleg áhrif hérlendis og e.t.v. leitt til þess að hafnir verði sjálfstæðari en áður. "Rétt er þó að minna á að þessi stefnumótun ESB mun einkum ná til vöruhafna og því er ekki víst hve Íslendingar tækju slík ákvæði kaþólskt upp. Það sem vakir fyrir ESB er að móta samgöngumál heildstætt í því skyni að færa flutninga af landleiðum yfir í sjóflutninga í því skyni að minnka álag á vegakerfið. Um leið og sjálfstæði hafna verður aukið má því búast við að auknir skattar verði lagðir á landflutningana. Það er því enn óljóst hvaða áhrif þetta hefur á okkur Íslendinga en það er sjálfsagt að fylgjast vel með þróuninni."

Már segir að ef gera eigi rekstur hafna sjálfstæðari verði væntanlega að gefa gjaldskrá þeirra frjálsa. Nú gefi samgönguráðuneytið út gjaldskrá fyrir megintekjustofna en þjónustugjöld séu á forræði hafnanna sjálfra.