ALLIR Brandenburgarkonsertar Bachs verða fluttir á tvennum jólatónleikum Kammersveitar Reykjavíkur í Áskirkju annað kvöld, fimmtudagskvöld, og á sunnudag, en tónleikarnir marka upphaf tuttugasta og fimmta starfsárs sveitarinnar.
Hátíðartónleikar Kammersveitar Reykjavíkur í Áskirkju
Brandenburgarkonsertarnir fluttir í heild sinniALLIR Brandenburgarkonsertar Bachs verða fluttir á tvennum jólatónleikum Kammersveitar Reykjavíkur í Áskirkju annað kvöld, fimmtudagskvöld, og á sunnudag, en tónleikarnir marka upphaf tuttugasta og fimmta starfsárs sveitarinnar.
Að sögn Rutar Ingólfsdóttur fiðluleikara, sem er listrænn stjórnandi Kammersveitar Reykjavíkur, mun þetta vera í fyrsta sinn sem staðið er að heildarflutningi þessara frægu verka hér á landi. Þar sem það þótti of mikið að flytja alla konsertana sex á einum tónleikum var ákveðið að hafa tvenna tónleika og flytja konserta nr. 13 á þeim fyrri og 46 á hinum seinni. "Strax á fyrstu jólatónleikum kammersveitarinnar var fluttur Brandenburgarkonsert, sá nr. 2, og síðan hafa þeir allir verið fluttir margoft nema nr. 6, sem verður nú í fyrsta sinn á tónleikum hjá okkur," segir Rut.
"Við höfum alltaf haft þann sið að spila konserta frá barokktímanum á jólatónleikunum og ef við teljum það saman í gegnum öll árin hefur Bach líklega verið spilaður oftast," segir Rut og bætir við að fast á hæla Bachs fylgi Vivaldi, Telemann og Corelli.
"Vegna þess að nú er hátíðarár hjá okkur ákváðum við að hafa þetta með glæsibrag," segir hún. Um það bil tvö ár eru síðan ákveðið var að flytja Brandenburgarkonsertana á þessum tónleikum. Og ástæðan er einföld: "Þetta finnst okkur hljóðfæraleikurunum vera hápunkturinn á tónlist frá þessum tíma, a.m.k. okkur sem spilum á þau hljóðfæri sem Bach notar í þessum konsertum. Svo við þurftum eiginlega ekki að ræða það hvað ætti að flytja á jólatónleikum á afmælisárinu."
Í góðum höndum Jaaps Schröders
Kammersveitin hefur fengið hollenska fiðluleikarann Jaap Schröder til að leiða flutninginn en hann er íslenskum tónlistarunnendum að góðu kunnur, bæði fyrir þátttöku sína í Skálholtstónleikum mörg undanfarin sumur og fyrir ótal plötuupptökur. "Við erum mjög þakklát og ánægð að hafa fengið þennan frábæra listamann til þess að leiða okkur og leiðbeina. Mörg okkar hafa unnið með honum í Skálholti og við þekkjum hann af góðu þaðan og vitum að við erum í góðum höndum," segir Rut.
Jólatónleikarnir verða haldnir í Áskirkju, eins og verið hefur allt frá því að sú kirkja reis. "Við vorum með fyrstu tónleikana okkar þar í byrjun árs 1984, þegar kirkjan var nývígð og Kammersveitin hélt upp á tíu ára afmæli sitt," segir Rut.
Einleikarar á tónleikunum verða fiðluleikararnir Rut Ingólfsdóttir og Hildigunnur Halldórsdóttir, víóluleikarnir Þórunn Ósk Marinósdóttir og Guðrún Hrund Harðardóttir, óbóleikararnir Daði Kolbeinsson, Eydís Franzdóttir og Peter Tompkins, hornleikararnir Jósef Ognibene og Þorkell Jóelsson, flautuleikararnir Bernharður Wilkinson, Martial Nardeau og Guðrún S. Birgisdóttir, Rúnar H. Vilbergsson fagottleikari, Ásgeir H. Steingrímsson trompetleikari, og Helga Ingólfsdóttir semballeikari.
Í framhaldi af tónleikunum í Áskirkju verða Brandenburgarkonsertarnir allir teknir upp og gefnir út á geislaplötu á vori komanda. "Við tökum upp þrjá konserta núna fyrir jól og hina þrjá í febrúar, þá kemur Jaap Schröder aftur til landsins," segir Rut. Á afmælisárinu stendur reyndar til að út komi alls fimm geislaplötur með leik Kammersveitar Reykjavíkur á vegum útgáfufyrirtækisins Arsis í Hollandi. Auk Brandenborgarkonserta Bachs koma út Kvartett um endalok tímans eftir Messiaen og kammerverk eftir Mozart, Brahms, Dvorák og Saint-Sa¨ens. Þá er enn ótalin útgáfa á tónbálkinum Tímanum og vatninu eftir Atla Heimi Sveinsson við ljóð Steins Steinars, sem hljóðritaður var á 20 ára afmæli Kammersveitarinnar árið 1994 og er væntanlegur á geislaplötu á árinu 1999.
Tónleikarnir annað kvöld hefjast kl. 20.30 og þeir seinni verða nk. sunnudag kl. 17.00. Forsala aðgöngumiða er í verslun Máls og menningar, Laugavegi 18.
KAMMERSVEIT Reykjavíkur flytur alla Brandenburgarkonserta Bachs á tvennum tónleikum í Áskirkju, annað kvöld og á sunnudag.