Víkingar vilja
á Laugardalsvöll
VÍKINGAR, sem leika í efstu
deild karla í knattspyrnu næsta sumar eftir sex ára fjarveru, hafa sótt um að leika heimaleiki sína í deildinni á Laugardalsvellinum. Hafa þeir sótt um að leika alla níu heimaleiki sína í deildinni á vellinum auk hugsanlegra leikja í bikarkeppninni. Þeir hyggjast því ekki leika á heimavelli sínum í Stjörnugróf næsta sumar.
Jóhann Kristinsson, vallarstjóri Laugardalsvallar, staðfesti í gær að Víkingar hefðu óskað eftir notum af vellinum og til stæði að rekstrarnefnd vallarins tæki málið fyrir eftir helgi. Í nefndinni eiga sæti, auk Jóhanns, þeir Eggert Magnússon formaður KSÍ og Geir Þorsteinsson framkvæmdastjóri KSÍ.
Samkvæmt samningi við Reykjavíkurborg eiga Fram og Þróttur rétt á notum af Laugardalsvelli leiki liðin í efstu deild. Það gerðu þau bæði sl. sumar og var hann því heimavöllur þeirra, en Þróttarar féllu úr efstu deild í haust og taka Víkingar sæti þeirra.