HÆSTIRÉTTUR sýknaði á fimmtudag íslenska ríkið af endurgreiðslukröfu þrotabús S. Óskarssonar & Co hf. Fyrirtækið hafði orðið að greiða jöfnunargjald á franskar kartöflur á tímabilinu febrúar 1988 til febrúar 1992. Með dómi Hæstaréttar H.1996.4260 hafði álagning gjaldsins verið dæmd ólögmæt. Krafa þrotabúsins hljóðaði upp á 41.760.926 kr.
Ólögmætt jöfnunargjald á franskar kartöflur fyrir Hæstarétti

Greiðslukröfur fyrndar HÆSTIRÉTTUR sýknaði á fimmtudag íslenska ríkið af endurgreiðslukröfu þrotabús S. Óskarssonar & Co hf. Fyrirtækið hafði orðið að greiða jöfnunargjald á franskar kartöflur á tímabilinu febrúar 1988 til febrúar 1992. Með dómi Hæstaréttar H.1996.4260 hafði álagning gjaldsins verið dæmd ólögmæt. Krafa þrotabúsins hljóðaði upp á 41.760.926 kr. Í dómnum segir að málið sé eingöngu höfðað til endurkröfu ofgreidds fjár. Ekki verði því fjallað um það hvort þrotabúið eigi rétt á skaðabótum. Fjögurra ára fyrningarfrestur eigi við um kröfu þrotabúsins samkvæmt lögum nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. "Samkvæmt gögnum málsins var jöfnunargjaldið greitt án athugasemda til viðtakenda gjaldsins. Hins vegar var gripið til þess ráðs í mótmælaskyni og í samráði við erlenda seljendur vörunnar að láta sem innkaupsverð hennar væri lægra en það raunverulega var, svo að gjaldið legðist á lægri gjaldstofn. Áfrýjanda hefði þó verið í lófa lagið að bera gjaldtökuna undir dómstóla og krefjast endurgreiðslu, þegar eftir að hann hafði greitt í fyrsta sinn, teldi hann gjaldtökuna óheimila á einhvern hátt. Verður við það að miða að borgararnir grípi til þeirra eðlilegu ráðstafana, sem þeir eiga tiltækar, telji þeir á sig hallað af hálfu ríkisvaldsins.

Var enn frekari ástæða til þess fyrir S. Óskarsson & Co hf. þar sem fyrirtækið stóð ásamt hagsmunafélagi sínu að mótmælum gegn gjaldinu á þessum tíma. Er þannig ekki annað komið fram en að fyrirtækið hafi án mikils fyrirvara mátt bera gjaldið undir dómstóla. Fjögurra ára fyrningarfrestur var því löngu liðinn þegar áfrýjandi hófst handa um málsókn þessa með stefnu birtri 25. júní 1997," segir í dómnum. Hvor aðili um sig var dæmdur til að bera sinn kostnað af málinu. Málið fluttu Jón Magnússon hrl. af hálfu Þrotabús S. Óskarssonar & Co. hf. en Einar Karl Hallvarðsson hrl. fyrir hönd íslenska ríkisins. Annað mál bíður dóms Nú er rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur annað endurkröfumál af þessu tagi þar sem Dreifing ehf. hefur krafist endurgreiðslu á 90 milljóna króna ofgreiddu jöfnunargjaldi. Málavextir eru að því leyti öðruvísi en í ofangreindu máli að viðkomandi greiddi umyrðalaust jöfnunargjaldið en freistaði þess ekki að lækka það með því að láta líta út fyrir að innflutningsverð væri lægra en raun bar vitni. Ennfremur leitaði félagið til umboðsmanns Alþingis árið 1989 og fékk það álit hans árið 1990 að innheimta jöfnunargjaldsins væri lögmæt.

Rís þá sú spurning að sögn Hreins Loftssonar hrl. hvort hægt sé að ætlast til þess af borgurunum eftir slíkt álit að þeir hafi samt uppi fyrirvara um lögmæti gjaldsins. Að sögn Hreins er meðal annars á því byggt að túlka verði fyrningarreglur við þessar aðstæður með hliðsjón af ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu um vernd eignarréttar og um raunhæf úrræði til að ná fram rétti sínum.