MÁLVERK breska myndlistarmannsins Luciens Freuds, "Nakin fyrirstæta þungt hugsi" var seld á uppboði hjá Sotheby's í vikunni. Fengust um 2,8 milljónir punda fyrir myndina, um 320 milljónir ísl. kr. og er hún þar með dýrasta samtímalistaverk sem selt hefur verið í Evrópu.
Reuters Dýrasta samtímalistaverkið

MÁLVERK breska myndlistarmannsins Luciens Freuds, "Nakin fyrirstæta þungt hugsi" var seld á uppboði hjá Sotheby's í vikunni. Fengust um 2,8 milljónir punda fyrir myndina, um 320 milljónir ísl. kr. og er hún þar með dýrasta samtímalistaverk sem selt hefur verið í Evrópu.

Um hátterni Grænlendinga Grænlendingar horfa björtum augum á framtíðina, segir Jósef H. Gunnlaugsson, og láta hluti í friði sem þeim koma ekki við.

UNDANFARIN misseri hefur umræða um Grænland verið nokkuð áberandi í blöðum og sjónvarpi. Beint höfum við sjónum okkar að hinni mögnuðu náttúru sem Grænland hefur upp á að bjóða, og að ýmsu sem snýr að ferðamennsku. Er það allt gott og gilt. En ekki hefur mikið borið á Grænlendingum sjálfum í þeirri náttúrudýrkun sem umræðan óneitanlega er. Nema kannski að við hneykslumst á hátterni þeirra, sóðaskap og drykkju, eins og kom, svo dæmi sé tekið, mjög skýrt fram í sjónvarpsþætti um smáþorp á austurströnd Grænlands Illoqortoomiut, "stað stóru húsanna" ekki alls fyrir löngu í ríkissjónvarpinu. Og þökk sé RÚV, þá var það sem enn ein vítamínsprautan í æð þeirra vonandi fáu Íslendinga, sem gaman hafa og gagn af því að upphefja sjálfa sig sem hluta af þjóð, sem er nágrönnum sínum æðri. Það er nefnilega útbreiddur misskilningur að Grænlendingar séu upp til hópa byttur og letingjar. Og er við tölum um Grænlendinga, þá hljótum við að vera að tala um alla Grænlendinga, nema við skilgreinum hlutina betur. Víst er það rétt, að íbúar smáþorpa á "baksíðunni", eins og Grænlendingar sjálfir kalla austurströndina, fara óvarlega með áfengi, og þar er atvinnuleysi. En á "baksíðunni", eru aðeins 2 byggðakjarnar, þ.e. Illoqotoomiut og Ammassalik, "Síldarverkun". Og þar búa u.þ.b. 2.000 manns, séu smáporp eins og Kulusuk, "Hryggbein", tekin með. En einmitt þangað hefur leið margra Íslendinga legið í ófáum dagsferðum Flugleiða og Flugfélags Íslands undanfarin ár. Beint í ómenninguna. Við heimkomuna eru menn svo mun fróðari en fúll á móti, um grænlenska menningu almennt. "Baksíðan" hefur auðvitað framhlið, sem snýr í vestur og suður. Og eru þeir 53.000 íbúar sem þar búa, óvart teknir með þegar "fróðir" Íslendingar tala um grænlenska menningu í heild sinni. "Fróðir" Íslendingar segja mér að á Grænlandi sé til siðs að menn bjóði gestum konur sínar til afnota. Og að það sé meira að segja ókurteisi að þiggja ekki boðið. Einnig sé það almenn regla að ropa og helst reka við að lokinni máltíð. En ég sjálfur fer nú að efast um sannsögli þessara "fróðu" manna, er þeir fræða mig á því að "þessir Grænlandingar séu bara nýskriðnir út úr snjóhúsunum". En þetta er nú bara saklaust grín, nema ég hafi verið svo værukær á ferðum mínum, að ég hafi ekki tekið eftir þessu. Hitt er alls ekkert gamanmál, er við heyrum um morð og sjálfsvíg í fréttum. þá eru þessir sömu "fróðu" menn búnir að kynna sér málin til hlítar á undra skömmum tíma og segja mér að svona sé þetta með Grænlendinga og þaðan sé engar góðar fréttir að fá. Raunin er þó allt önnur. Þó svo að á Grænlandi sé hátt hlutfall sjálfsvíga og morða miðað við Ísland, er drykkjuskapur og ómenning í álíka hlutfalli, séu báðar þjóðirnar skoðaðar í heild. Og það sem meira er, þá komast Grænlendingar ekki með tærnar þar sem Íslendingar hafa hælana hvað varðar misnotkun fíkniefna. Þeir vita það nefnilega, að fíkniefni eyðileggi sálir manna. Og sé einhver svo ólánsamur að reyna að selja eitthvað sterkara en hass, eða "sterkt tóbak" eins og það kallast á Grænlandi, þá er hann útskúfaður og tekinn úr umferð með það sama. Lögreglan þarf varla að koma þar nærri, og þykir mér það bera vott um hvað þjóðarvitund þeirra er sterk. Á hinn bóginn, þá er hass trúlega útbreiddara á Grænlandi en á Íslandi, svo ég fari nú með rétt mál. Þetta segði ég ekki, ef ég væri ekki búinn að kynna mér málin til hlítar. En það lærði ég einmitt af Grænlendingum sjálfum, að vera ekki að gaspra einhverja vitleysu, heldur að kynna mér málavexti vel áður en ég opna á mér kjaftinn. En þessi skynsemi er öllum Grænlendingum sem ég þekki í blóð borin og stór hluti af þeirra menningu. Enda láta þeir aldrei stór orð falla um hluti sem þeir hafa ekki fullan skilning á. Grænlendingar almennt fylgjast vel með öllu í kringum sig, hvort sem átt er við annað fólk, náttúruna, fróðleik, tækni eða þróun. Þeir horfa björtum augum á framtíðina og láta hluti í friði sem þeim koma ekki við. En þeir gjalda í sömu mynt sé þeim misboðið, einnig sé þeim greiði gerður. "Látir þú mig vera, læt ég þig vera", "Geri ég þér gott, gerir þú mér gott", eru sagnir sem lifa góðu lífi meðal Grænlendinga í dag. Og eiga þar við mannleg samskipti frá degi til dags ­ alls ekki þjóð mót þjóð, hvorki í nútíð né þátíð. En Grænlendingar hafa eins og við vitum, ekki aldeilis farið varhluta af innrásum annarrar menningar og siða, eða skilningsleysi og afskiptasemi ókunnugra á þeirra lífsviðurværi. Þeir láta það, þótt ótrúlegt megi virðast, ekki trufla sig í sínu daglega lífi í þeirra eigin landi. Þeir vita það, að styrkur þeirra er fólgin í þeim sjálfum og láta það vera að blanda sér í annarra mál. Höfundur er starfsmaður Ölgerðarinnar, en hefur undanfarin misseri ferðast mikið um Grænland á eigin vegum.

Jósef H. Gunnlaugsson KAUPFÉLAGIÐ og pakkhúsið í Igaliku, "Görðum", á kyrrlátum síðsumarsmorgni.