Verðlaun veitt í hönnunarsamkeppni Íslensk ull á nýrri öld UM HUNDRAÐ tillögur bárust í hönnunarsamkeppni Fagráðs textíliðnaðarins Íslensk ull á nýrri öld og voru sigurvegararnir heiðraðir í liðinni viku. Björg Ingadóttir og Valgerður Torfadóttir í Spaksmannsspjörum deildu fyrsta sætinu með Valgerði Melsted.
Verðlaun veitt í hönnunarsamkeppni Íslensk ull á nýrri öld

UM HUNDRAÐ tillögur bárust í hönnunarsamkeppni Fagráðs textíliðnaðarins Íslensk ull á nýrri öld og voru sigurvegararnir heiðraðir í liðinni viku. Björg Ingadóttir og Valgerður Torfadóttir í Spaksmannsspjörum deildu fyrsta sætinu með Valgerði Melsted. Þá voru veitt aukaverðlaun fyrir nýjung í efnasamsetningu og komu þau í hlut Sigurðar Gunnlaugssonar sem fitjaði upp á þeirri nýjung að prjóna mýkra efni innan á ullina til að hún yrði þægilegri fyrir þá sem vildu hafa hana næst sér.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, veitti verðlaunin í Listasafni Íslands en Guðrún Katrín Þorbergsdóttir forsetafrú átti sæti í dómnefndinni. Auk hennar voru þar Logi Úlfsson frá Íslenskum markaði, Guðjón Kristinsson frá Ístex, Oddný Kristjánsdóttir, klæðskeri og Gunnar Hilmarsson í GK.

"Þetta var mjög vel heppnað," segir Sævar Kristinsson, framkvæmdastjóri Fagráðs textíliðnaðarins. "Keppnin gekk út á að efla vöruþróun úr íslenskri ull og vitum við af því að það er verið að semja við nokkra hönnuði sem ekki unnu til verðlauna þannig að þetta hefur komið heilmikilli grósku af stað. Við ætlum að reyna að keyra ullina inn á íslenskan markað og vorum að kynna þetta kvöld nýtt gæðamerki fyrir ullina."

Hann segir að ullin búi yfir fjölmörgum tæknilegum eiginleikum frá náttúrunnar hendi og tilgangurinn hafi verið að vekja athygli á henni sem hráefni. "Einnig vorum við að efla samstarfið milli framleiðenda og hönnuða og síðast en ekki síst að efla nýsköpun og vöruþróun," segir hann.

Morgunblaðið/Jón Svavarsson

ÓLAFUR Ragnar Grímsson ásamt verðlaunahöfunum og Gunnari Hilmarssyni.

SIGURÐUR Gunnlaugsson sýnir hvernig lausn hans er útfærð, en hann vann til sérstakra aukaverðlauna.

HELGA Edvardsdóttir, Þrúður Helgadóttir og Fríður Ólafsdóttir virða fyrir sér lausnir Sigurðar Gunnlaugssonar á þægilegum ullarpeysum.

HÖNNUNIN frá Spaksmannsspjörum var gædd þeirri náttúru að "breyta ímynd íslensku ullarinnar þannig að hún tengdist stefnum og straumum tískunnar og blandaðist þar með tískufatnaði úr öðrum efnum".

Í LÍNUNNI Rift frá Valgerði Melsted er lita- og efnisvali ætlað að endurspegla náttúru landsins og eru ólík efni notuð jafnfætis ullinni til að skapa nýstárlega íslenska fatalínu fyrir nútímafólk hérlendis sem erlendis.