LIONEL Jospin, forsætisráðherra Frakklands, blés í gær til pólitískrar stórsóknar með því að tilkynna um aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að binda enda á mótmælaaðgerðir atvinnulausra og saka Jacques Chirac forseta um að reyna að skerða verkfallsréttindi launþega.
Jospin gagnrýnir Chirac og boðar aðgerðir

París. Reuters.

LIONEL Jospin, forsætisráðherra Frakklands, blés í gær til pólitískrar stórsóknar með því að tilkynna um aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að binda enda á mótmælaaðgerðir atvinnulausra og saka Jacques Chirac forseta um að reyna að skerða verkfallsréttindi launþega.

Jospin vísaði ennfremur á bug orðrómi um að Chirac hefði í hyggju að flýta forsetakosningum og boða til þeirra strax á næsta ári í því skyni að nýta sér misklíð í röðum vinstrimanna og klofningsástand meðal róttækra hægrimanna.

Jospin lýsti því yfir í útvarpsviðtali að tvenns konar félagslegir styrkir til hinna örsnauðu yrðu hækkaðir um 3%, afturvirkt til janúar á þessu ári, í samræmi við hagvöxt ársins í ár, sem reiknað er með að verði 3,0­3,1%.

Þessari tilkynningu var ætlað að binda enda á síendurteknar mótmælaaðgerðir atvinnuleysingja, en þeir hafa m.a. verið að krefjast hækkunar félagslegra styrkja og jólauppbótar á atvinnuleysisstyrkinn.

Jospin sagði að mótmælin væru minni en í fyrra, þegar hreyfingin óx og vatt upp á sig og færði honum heim fyrsta kreppuástandið sem hann þurfti að glíma við frá því hann tók við embætti í maí 1997.

Jospin andmælti Chirac forseta harðlega, en hann hefur látið svo um mælt að réttast væri að starfsmenn hins ríkisrekna járnbrautarfyrirtækis SNCF, sem færu í verkfall, yrðu skuldbundnir til að veita lágmarksþjónustu til að borgararnir kæmust hjá stórfelldum óþægindum vegna verkfallsaðgerða þeirra.

"Ég tel að ekki sé hægt að skilgreina nákvæmlega lágmarksþjónustu hjá almenningssamgöngufyrirtækjum," sagði Jospin. "Það er ekki hægt. Og því er tillagan í raun ætluð til að skerða verkfallsréttindi. Það geri ég ekki," sagði hann.