MICHAEL Owen, leikmaður Liverpool og enska landsliðsins í knattspyrnu, var útnefndur íþróttamaður ársins hjá ensku sjónvarpsstöðinni BBC á sunnudag en hann varð 19 ára í gær. PATRICK Vieira, miðjumaður hjá Arsenal, var í gær gert að greiða 20.


ÞORVALDUR Ásgeirsson, knattspyrnumaður hjá Fram, mun ekki ganga til liðs við KA, eins og fyrirhugað var.

MICHAEL Owen, leikmaður Liverpool og enska landsliðsins í knattspyrnu, var útnefndur íþróttamaður ársins hjá ensku sjónvarpsstöðinni BBC á sunnudag en hann varð 19 ára í gær.

PATRICK Vieira, miðjumaður hjá Arsenal, var í gær gert að greiða 20.000 pund, liðlega tvær millj. kr., í sekt vegna óprúðmannlegrar framkomu gagnvart áhorfendum á leik Sheffield Wednesday og Arsenal á Hillsborough í september. Aganefnd Knattspyrnusambands Englands kvað upp dóminn sem varð til vegna þess að franski landsliðsmaðurinn sendi áhorfendum fingurmerki.

DICK Advocaat, þjálfari Rangers, hefur keypt leikmenn fyrir meira en 33 millj. punda á undanförnum sex mánuðum en í gær fékk hann vinstri kantmanninn Neil McCann frá Hearts fyrir 1,9 millj. punda.

McCANN, sem gerði samning til fjögurra og hálfs árs, er fyrsti Skotinn sem Advocaat kaupir til félagsins en Rangers og Hearts mætast í skosku deildinni á laugardag.

CELTIC reyndi að fá McCann frá Dundee fyrir þremur árum. Það gekk ekki og ári síðar fór hann til Hearts fyrir 200.000 pund.

BOB Houghton, landsliðsþjálfari Kína, fékk að sjá rauða spjaldið þegar Kína vann Túrkmenistan 3:0 í átta liða úrslitum á Asíuleikunum í gær. Varadómari gerði mistök þegar Houghton var að skipta manni inn á undir lokin, Englendingurinn mótmælti, var vikið af svæðinu og stjórnar ekki liði sínu þegar það mætir Íran í undanúrslitum.

PETER Withe, sem tók við landsliði Tælands fjórum vikum áður en Asíuleikarnir hófust, er þjóðhetja í landinu eftir 2:1 sigur á Suður-Kóreu í átta liða úrslitum í gær. Tæland, sem lauk leiknum með níu menn, mætir Kúveit í undanúrslitum.

ALI Daei, miðherji Bayern M¨unchen, var með þrennu á síðustu 10 mínútunum þegar Íran vann Úzbekistan 4:0.