Milljón tonn
vantar
miðað við
fyrri spár
HAFRANNSÓKNASTOFNUN
mun halda í loðnuleitarleiðangur í byrjun nýs árs, en miklu minna fannst af kynþroska loðnu í rannsóknaleiðangri stofnunarinnar í nóvember en búist hafði verið við. Um 360.000 tonn mældust af kynþroska loðnu og sérstaka athygli vakti að sá hluti stofnsins virtist heldur illa á sig kominn, magur og rýr. Af ókynþroska loðnu mældust 480.000 tonn, en hún mun ekki hrygna fyrr en árið 2000.
Samkvæmt fyrri spám um stærð loðnustofnsins var loðnustofninn áætlaður um 2,1 milljón tonna. Miðað við það var gert ráð fyrir að heildarkvóti fyrir Ísland, Grænland og Noreg gæti orðið 1.420.000 tonn. Kvóti til bráðabirgða var gefinn út í sumar, 945.000 tonn.
Hjálmar Vilhjálmsson fiskifræðingur segir niðurstöður rannsóknanna svo langt frá því sem búist hafði verið við að ákveðið hafi verið að fara í annan loðnuleiðangur í upphafi nýs árs. Hafrannsóknastofnun mun því ekki leggja til neinar breytingar á loðnukvótanum fyrr en að lokinni endurmælingu stofnsins í janúar.
"Það vantar hátt í hálfa milljón tonna til þess að sá kvóti, sem þegar hefur verið úthlutað, standist, og annað eins ef spáin á að ganga eftir, þannig að þau milljón tonn af loðnu sem hefðu þurft að vera á svæðinu svo að spár gangi eftir var hvergi að finna," segir Hjálmar Vilhjálmsson.
Loðnuskipin eru nú í landi vegna brælu, en um helgina fundu þau gríðarlega loðnuflekki norður af Langanesi og bendir það til þess að loðnan sé gengin á miðin.
Milljón tonn/B2