Á LEIÐINNI í Háskólabíó laugardaginn 28. nóvember var örtröð bíla sem streymdu vestur Hringbrautina rétt fyrir kl. 14. Við bíóið kom skýringin því þar voru langar biðraðir fólks sem ekki var sama um landið sitt og hvernig því væri skilað í hendur afkomenda okkar. Þetta hugsandi fólk var komið til að berjast gegn hinu ótrúlega glámskyggna yfirvaldi sem grúfir yfir Íslandi um þessar mundir.
Þjóðfundur í
HáskólabíóiMeð óskiljanlegum hætti hafa eignir Íslendinga að mestu komist í hendur fárra óábyrgra einstaklinga, segir Albert Jensen , sem engan áhuga hafa fyrir velferð lands og þjóðar.
Á LEIÐINNI í Háskólabíó laugardaginn 28. nóvember var örtröð bíla sem streymdu vestur Hringbrautina rétt fyrir kl. 14. Við bíóið kom skýringin því þar voru langar biðraðir fólks sem ekki var sama um landið sitt og hvernig því væri skilað í hendur afkomenda okkar. Þetta hugsandi fólk var komið til að berjast gegn hinu ótrúlega glámskyggna yfirvaldi sem grúfir yfir Íslandi um þessar mundir. Fólkið kom sá og vann áfangasigur gegn fyrirhugaðri skemmdarstarfsemi á ósnortnu landi sem yrði með öllu óbætanlegt. Þarna fann ég að þrátt fyrir allt var baráttan ekki vonlaus.
Þjóðin er nú á mörkum þess að halda áfram að vera til, eða hverfa til einhvers sem hvorki hefur upphaf né endi. Þjóð verður að eiga land, tungumál, vera sjálfstæð og vita hvað hún vill. Með óskiljanlegum hætti hafa eignir Íslendinga að mestu komist í hendur fárra óábyrgra einstaklinga sem engan áhuga hafa fyrir velferð lands og þjóðar. Völdin sem auðæfin hafa fært þessum mönnum nota þeir gegn þjóðinni á margvíslegan hátt, komast jafnvel bakdyramegin til áhrifa í ríkiskerfinu. Þegar fólk sem hugsar fram í tímann reynir á lýðræðislegan hátt að upplýsa almenning um skelfilegar afleiðingar eyðileggingar á landi og síaukinar mengunar blandar stjórn landsvirkjunar sér í málið með rándýrum auglýsingum sem eiga að sýna hvað landið er miklu fallegra ef ekki sést í það. Hver hvetur Landsvirkjun til slíkrar lágkúru, hver leyfir slíkt, hver græðir og hver borgar brúsann? Landsvirkjun gegn vinnandi fólki í Technoprom-málinu hefði með svo mörgu öðru átt að kveikja viðvörunarljós hjá þjóðinni um hvort verið sé að skapa skrímsli sem hún muni ekki ráða við.
Fundurinn í Háskólabíói var aðstandendum hans til sóma og er ég sannfærður um að þetta var eiginlegur þjóðfundur, þverskurður af vilja þjóðarinnar þar sem skynsemi, framsýni og góðvilji fóru saman gegn heimsku og skammsýni. Framsöguræða Guðmundar Páls Ólafssonar verður mönnum eflaust minnisstæð og svo honum sjálfum viðtökurnar. Hann leiddi hugi fundarmanna aftur til ársins 1623 þegar heimski presturinn á Helgafelli lét eyða í eldi ómetanlegum þjóðargersemum í bókum og skjölum. Aðgerðum stjórnvalda í hálendismálum nú líkir hann við gerð hins lánlausa prests á ömurlegustu öld Íslandsbyggðar.
Ég vil svara öldruðum manni af Vesturlandi sem spyr í Morgunblaðinu, hvar allt þetta fundarfólk hafi verið þegar virkjanir hófust fyrir alvöru. Flestir voru ekki fæddir þá, en hinir vissu að verið var að rafvæða landið, það var verið að virkja fyrir Íslendinga sjálfa.
Finnur Ingólfsson og hans líkar verða löngu gleymdir, nema í líkingu prestsins frá Helgafelli, þegar þjóðin mun nú og um langan aldur minnast manna eins og Guðmundar Páls með virðingu og þakklæti. Allur hans málflutningur er fyrir land og þjóð í nútíð og framtíð og að sjálfsögðu þvert á þvælukennda rökleysu iðnaðarráðherra, sem stundum virðist ekki vita hvort hann er að tala með eða móti landspjöllum. Öfugmælafullur málflutningur ráðherrans er næstum skáldlegur á köflum.
Hann lætur gamminn geisa af álíka forsjálni og Þráinn forðum. Á sama tíma og hann gerir lítið úr mengun af völdum stóriðju og ríkisstjórnin gerir okkur þá skömm að skrifa ekki undir Kyotosáttmálann nema hún fái aukamengunarkvóta berast ógnvekjandi fréttir frá Alaska. Þar eiga sér stað gífurlegar landskemmdir sem eru undanfari jarðvegsfoks og landauðnar. Afleiðingar margra milljóna fermílna gats í ósonlaginu eru farnar að gera mönnum ljóst að þeir hafa þegar gengið of langt í subbuskapnum gagnvart jörðinni og öllum náttúrulögmálum. En þrátt fyrir að svo augljósar staðreyndir blasi við er haldið áfram að blekkja og menga. Heimska er trúlega versti óvinur mannkyns og sýnist næsta ósigrandi. Auður kemur engum þeim að gagni sem ekki nær andanum.
Austur á fjörðum var maður nokkur spurður hvað honum fyndist um að sökkva Eyjabökkum. "Lítil eftirsjá í þeim, þeir eru svo erfiðir í smölun." Aldraður bóndi sagðist "hugsa af meiri hlýhug til Ómars Ragnarssonar nú en hann hugsaði illa áður". Eftir undursamlegar stundir hin síðari ár á hálendinu hef ég vaknað til meðvitundar um listrænan og mildan málflutning þessa mannvinar og landvinar til varnar báðum. Ef menn kynnu að meta landið með svo ástríkum hætti sem Ómar og hans líkar gera yrðu Landsvirkjunarmenn að hugsa áður en þeir framkvæmdu. Það er svo ótal margt annað að stefna að en heilsuspillandi stóriðja.
Höfundur er byggingameistari.
Albert Jensen