HÆSTIRÉTTUR hefur dæmt fyrrverandi umsjónarmann Lífeyrissjóðs starfsmanna Áburðarverksmiðju ríkisins til að greiða sjóðnum 55.000.000 króna skaðabætur vegna óforsvaranlegra skuldabréfakaupa fyrir hönd sjóðsins. Þá var endurskoðandi sjóðsins dæmdur til að greiða 4.000.000 af þessari fjárhæð óskipt ásamt umsjónarmanninum. Bera bótafjárhæðirnar dráttarvexti frá 8. apríl 1997 til greiðsludags.
Fyrrverandi umsjónarmaður Lífeyrissjóðs starfsmanna Áburðarverksmiðju ríkisins bótaskyldur

Hæstiréttur hækkar

bætur úr 5 í 55 milljónir HÆSTIRÉTTUR hefur dæmt fyrrverandi umsjónarmann Lífeyrissjóðs starfsmanna Áburðarverksmiðju ríkisins til að greiða sjóðnum 55.000.000 króna skaðabætur vegna óforsvaranlegra skuldabréfakaupa fyrir hönd sjóðsins. Þá var endurskoðandi sjóðsins dæmdur til að greiða 4.000.000 af þessari fjárhæð óskipt ásamt umsjónarmanninum. Bera bótafjárhæðirnar dráttarvexti frá 8. apríl 1997 til greiðsludags. Íslenska ríkið og Áburðarverksmiðjan hf. voru hins vegar sýknuð af kröfum lífeyrissjóðsins þar sem skilyrði húsbóndaábyrgðar þóttu ekki vera fyrir hendi. Með bréfi, dagsettu 26. október 1994, óskaði stjórn lífeyrissjóðsins eftir opinberri rannsókn á skuldabréfakaupum sjóðsins á undanförnum misserum. Um var að ræða kaup á skuldabréfum tryggðum með veði í fasteignum á byggingarstigi. Með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 20. júní 1995, var höfðað opinbert mál á hendur starfsmanni Áburðarverksmiðjunnar sem hafði umsjón með sjóðnum ásamt endurskoðanda sjóðsins. Samkvæmt dómi Hæstaréttar 2. apríl 1996 var umsjónarmaðurinn meðal annars sakfelldur fyrir umboðssvik samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa, án þess að afla gagna um veðhæfi hinna veðsettu eigna og upplýsinga um skuldara bréfanna, og brjóta þannig gegn ákvæðum reglugerðar lífeyrissjóðsins, staðfestri af fjármálaráðuneytinu 4. janúar 1993, með umræddum kaupum á veðskuldabréfum, stefnt með meginhluta kaupanna fé sjóðsins í stórfellda hættu. Þá var endurskoðandinn sakfelldur með sama dómi fyrir brot gegn 10. gr., sbr. 17. gr. laga nr. 67/1976 um löggilta endurskoðendur og 2. mgr. 3. gr., sbr. 6. gr. laga um ársreikninga og endurskoðun lífeyrissjóða nr. 27/1991, sbr. 138. gr. almennra hegningarlaga, með því að hafa ekki gert fyrirvara um áðurnefnd skuldabréfakaup með áritun á árs- reikninga fyrir rekstrarárið 1993 eða á viðeigandi hátt í skýringum með þeim. 24. gr. skaðabótalaga á ekki við Í kjölfarið höfðaði sjóðurinn skaðabótamál á hendur viðkomandi auk íslenska ríkisins og Áburðarverksmiðju ríkisins hf., sem tekið hefur við réttindum og skyldum Áburðarverksmiðjunnar. Vísaði Hæstiréttur í dómi sínum 11. desember síðastliðinn til fyrrgreinds hæstaréttardóms um sök umsjónarmannsins. Ekkert hefði komið fram sem styddi staðhæfingu hans um að hann hefði keypt skuldabréfin með vitund og vilja stjórnar lífeyrissjóðsins. Væri hann því ábyrgður fyrir tjóninu. Höfuðstóll tjónsins var talinn nema 65.725.475 krónum. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði lækkað bótafjárhæðina vegna eigin sakar lífeyrissjóðsins og með vísan til 24. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 þar sem segir að lækka megi bótafjárhæð eða fella niður skaðabótaábyrgð "ef ábyrgðin yrði hinum bótaskylda svo þungbær að ósanngjarnt má telja eða álíta verður að öðru leyti skerðingu eða niðurfellingu sanngjarna vegna mjög óvenjulegra aðstæðna". Hæstiréttur féllst á að lækkun væri heimil vegna eigin sakar sjóðsins en hins vegar ætti 24. gr. skaðabótalaga ekki við. Héraðsdómur hafði sýknað endurskoðandann Hvað ábyrgð endurskoðandans snertir segir að hann hafi engra gagna aflað um veðhæfi þeirra fasteigna sem skuldabréfin voru tryggð í heldur hafi hann, að eigin sögn, stuðst við eigið mat þegar hann vann ársreikning fyrir árið 1993. Hann hafi í störfum sínum verið ábyrgur gagnvart sjóðsfélögum. Hafi honum borið að meta með viðhlítandi hætti verðgildi skuldabréfa, sem sjóðurinn keypti af öðrum en sjóðsfélögum, meðal annars með því að afla eftir þörfum gagna um veðhæfi. Þá hafi honum borið að kanna afstöðu stjórnar sjóðsins til þessara kaupa. Hafi hann því brugðist skyldum sínum gagnvart sjóðnum. Var bótaábyrgð hans talin ná til tjóns sem varð eftir 15. apríl 1994, en þann dag áritaði hann ársreikning fyrir árið 1993. Héraðsdómur hafði hins vegar sýknað endurskoðandann því hann hefði verið í góðri trú um, að stjórn stefnanda hefði verið fullkunnugt um áðurnefnd verðbréfakaup. Málið fluttu Magnús M. Norðdahl hrl. fyrir hönd lífeyrissjóðsins, Jón G. Tómasson hrl. af hálfu íslenska ríkisins, Elvar Örn Unnsteinsson hrl. fyrir hönd Áburðarverksmiðjunnar hf., Ástráður Haraldsson hrl. fyrir hönd umsjónarmanns sjóðsins og Helgi V. Jónsson hrl. af hálfu endurskoðandans.