FÖSTUDAGINN 4. desember sl. ritar forstöðukona Rauða kross Íslands, Sigrún Árnadóttir, grein í Mbl. þar sem hún hvetur íslensk stjórnvöld eindregið til þess að staðfesta bann við jarðsprengjum sem undirritað var af 123 ríkjum í Ottawa í Kanada á sl. ári.
Jarðsprengjubann ­ Vont mál

Bann við notkun jarðsprengna er alls ekki réttlætanlegt, segir Björn Jónsson , eins og ástandið er í alþjóðlegum öryggismálum nú við aldarlok.

FÖSTUDAGINN 4. desember sl. ritar forstöðukona Rauða kross Íslands, Sigrún Árnadóttir, grein í Mbl. þar sem hún hvetur íslensk stjórnvöld eindregið til þess að staðfesta bann við jarðsprengjum sem undirritað var af 123 ríkjum í Ottawa í Kanada á sl. ári. Grein þessi fylgir í kjölfar margra annarra slíkra sem nánast allir forstöðumenn Rauða krossins á Íslandi hafa ritað á undanförnum misserum af þessu sama tilefni og virðist sem undirrótin að þessum skrifum sé runnin frá Alþjóðasamtökum Rauða krossins sem hafi ákveðið að leggja nafn sitt við alþjóðlega herferð gegn notkun þessara vopna og að styðja baráttu þeirra sem vilja knýja fram alþjóðlegt bann við notkun þeirra.

Sem fyrrverandi Rauða kross starfsmanni á hættusvæðum hefur mér undirrituðum þótt þessi herferð allundarleg þar sem málefnið er augljóslega bæði af pólitískum og hernaðarlegum toga og stangast því freklega á við grundvallarreglu Rauða krossins um hlutleysi í slíkum málefnum og þá vinnureglu að taka ekki afstöðu til viðkvæmra pólitískra mála en á því hefur starfsfriður Rauða kross manna og kvenna á viðkvæmum átakasvæðum byggst um áraraðir.

Ef tekin hefur verið ákvörðun um grundvallarbreytingu á afstöðu Rauða krossins til slíkra mála, þá hefur sú ákvörðun farið mjög hljótt eða jafnvel verið tekin í kyrrþey, því ekki hefur hún verið tilkynnt opinberlega svo mér sé kunnugt um. En ef þetta er staðreyndin þarf engum að koma á óvart að Rauða kross starfsmenn verði æ oftar fyrir sams konar áreitni, ónæði og verði jafnvel fórnarlömb mannrána í löndum á borð við Afganistan og Tsjetsjeníu á sama hátt og starfsmenn annarra frjálsra félagasamtaka, fyrirtækja og alþjóðastofnana sem ekki hafa slíkt hlutleysi á stefnuskrá sinni. Málið er þess vegna vont Rauða kross mál og það er mjög miður að íslenskt rauða krossfólk skuli hafa ljáð því lið að lítt eða óathuguðu máli.

Ef málið væri eingöngu slæmt Rauða kross mál hefði hér verið sett amen eftir efninu, en svo er ekki: Bann við notkun jarðsprengna (og þvínæst léttum handvopnum eins og Sigrún Árnadóttir ýjar að í grein sinni) er alls ekki réttlætanlegt eins og ástandið er í alþjóðlegum öryggismálum nú við aldarlok og verður það fyrirsjáanlega ekki fyrstu árin eða áratugina á þeirri næstu. Til þess liggja afar einfaldar og augljósar ástæður sem ekki ætti að þurfa að tíunda fyrir fólki sem leggur sig eftir fréttum og upplýsingum af þessum vettvangi en þó skal hér það helsta tíundað. Við Íslendingar höfum komist upp með þann vafasama heiður, sem á sér ekki sinn líka annars staðar á jarðarkringlunni, að koma hvergi nálægt okkar eigin landvörnum og öryggismálum heldur fela þau alfarið í hendur öðrum. Okkur hefur nægt að senda utanríkisráðherra okkar til Bandaríkjanna u.þ.b. einu sinni á áratug þar sem hann hefur samið um framlengingu á gildandi varnarsamningi landanna í ótiltekinn tíma og þar með hafa öryggismál landsins verið í öruggri höfn og íbúar landsins hafa getað lagst til svefns og sofið hólpnir svefni hinna réttlátu til næsta morguns. En í mörgum tugum þjóðlanda og landsvæða í heiminum er þessu gjörsamlega á annan veg farið. Þar getur fólk allt eins átt von á því að verða myrt eða limlest í rúmi sínu, þorp þeirra og bæir jafnaðir við jörðu í skugga nætur, eins og að vakna aftur til lífsins næsta dag. Og til þess að verjast slíkum ósköpum eiga íbúarnir einskis annars úrkosti en að grípa til sinna eigin og oft fátæklegu ráða: Skipuleggja landvarnir á eigin kostnað (enginn mannvirkjasjóður NATO þar til þess að borga brúsann) eða, það sem æ algengara er á okkar dögum, þar sem upplausnarástand hefur skapast og ríkisvald, her þess og lögregla hafa leyst upp, að taka málin í eigin hendur og verja sitt landsvæði, hérað eða þorp með öllum tiltækum ráðum, þar með töldum jarðsprengjum og léttum handvopnum. Raunar má segja að slík vopn gegni algeru lykilhlutverki við þvílíkar kringumstæður. Það verður ekki ætlast til þess af fólki, sem gerir sér að góðu u.þ.b. einn fertugasta hluta af þjóðartekjum þróuðu iðnríkjanna á mann á ári, að það komi sér upp leysigeislastýrðum hátæknivopnabúnaði.

Eftir að hafa sjálfur haft náin kynni af þjóð þar sem slíkt öryggisleysi var daglegt brauð og jarðsprengjur og létt handvopn jafn ríkur þáttur af lífi og starfi fólks og bílar og farsímar eru á Íslandi, þá tel ég mig geta fullyrt að bann við slíkum vopnum væri glapræði hið mesta og mundi eingöngu stuðla að því að gera vont ástand enn verra.

Fyrir fáeinum dögum birtust myndir í sjónvarpi sem teknar höfðu verið rétt í þann mund sem að dæmigerð stórfjölskylda í þorpi einu í Suður-Alsír var að setjast að kvöldverðarborði sínu til snæðings. En frábrugðið því sem við hin lánsömu eigum að venjast, þá lá einnig á borðinu, auk rjúkandi réttanna, hlaðin AK-47 handvélbyssa, tilbúin til notkunar.

Ætla Sigrún Árnadóttir, Halldór Ásgrímsson eða jafnvel Ólafur Ragnar Grímsson að gera sér ferð þarna suður eftir og gefa þessu fólki góð ráð um hversu mikinn háskagrip sé þarna að ræða og hversu ráðlegt það væri að koma honum fyrir kattarnef? Tæpast.

Úr því sem málum er nú komið, eftir að fulltrúar Íslands undirrituðu ofangreindan Ottawa-samning að illa ígrunduðu máli fyrir ári þá tel ég að nú sé heillavænlegast að geyma áfram þennan samning í stóru skúffunni í ráðuneytinu, þar sem allir þeir ótalmörgu samningar sem Íslendingar hafa undirritað en ekki staðfest, liggja.

Hins vegar mætti gjarnan draga upp úr þessari sömu skúffu og staðfesta Kyoto-samninginn um loftlagsbreytingar svo ekki sé minnst á sáttmála Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi frá 1966 sem Ísland hefur enn ekki staðfest. Þar eru ótvírætt í báðum tilvikum góð mál á ferðinni.

Höfundur er fv. starfsmaður 3-D jarðsprengjudeildar Sameinuðu þjóðanna í Sómalíu.

Björn Jónsson