ÓHAPPIÐ í aðrennslispípunni við félagsheimili Rafmagnsveitunnar hefur orðið til þess að Elliðaárnar renna nú af krafti í farvegi sínum þar sem lokað var fyrir inntak pípunnar við uppistöðulónið. Þeir tólf rúmmetrar af vatni á sekúndu sem veitt er eftir pípunni renna nú í sínum gamla farvegi og hafa árnar breytt mikið um svip við þessa óvæntu breytingu. Þannig hafa t.d.
Elliðaárnar nálægt upprunalegri ásýnd sinni

ÓHAPPIÐ í aðrennslispípunni við félagsheimili Rafmagnsveitunnar hefur orðið til þess að Elliðaárnar renna nú af krafti í farvegi sínum þar sem lokað var fyrir inntak pípunnar við uppistöðulónið. Þeir tólf rúmmetrar af vatni á sekúndu sem veitt er eftir pípunni renna nú í sínum gamla farvegi og hafa árnar breytt mikið um svip við þessa óvæntu breytingu. Þannig hafa t.d. Búrfoss, sem er beint fyrir neðan Fáksheimilið við Bústaðaveg, og Kermóafoss endurheimt fyrra útlit að mestu.

Árnar voru virkjaðar árið 1921 og segir Ásgeir Ingólfsson viðskiptafræðingur og þýðandi, sem hefur fylgst með Elliðaánum á liðnum árum, að nóg vatn sé í austuránni og þokkalegt vatnsmagn sé í vesturánni, sem er fyrir neðan Höfðabakkabrúna.

Talsvert vatnsmagn í Kermóafossi

"Gamla vesturáin var laxveiðiá fram að virkjun, en hún hefur verið vatnslaus að meira eða minna leyti síðan hún var virkjuð," segir Ásgeir. "Maður gerir sér loksins grein fyrir því hversu mikið vatn þessi pípa hefur leitt burt úr ánni. Mér sýnist að eftir þetta atvik, sé áin eins nálægt því að vera eins frítt og frjálst rennandi og hún hefur nokkurn tíma verið frá því fyrir virkjun. Það er talsvert vatnsmagn í Kermóafossinum í vesturánni gömlu og ég get ímyndað mér, miðað við það sem maður hefur lesið, að miðað við vatnið sem er í ánum núna vanti ekki nema um hálfan kúbikmetra upp á að árnar séu eins og þær voru í gamla daga og einnig eru komnir hylir í vesturánni sem maður hefur ekki séð áður."

Ásgeir segir að atvikið á mánudagskvöldið gefi sér vonir um að virkjun Elliðaánna verði hætt og bætir því við að frumskilyrði fyrir því að hægt sé að rétta árnar við aftur sé að þær fái að renna. "Veiðin í þeim hefur verið nánast í sögulegu lágmarki síðastliðin tvö ár," segir hann. Það er skoðun Ásgeirs að virkjuninni fylgi ýmiss konar tjón á skordýralífi samhliða litlu vatnsmagni og hann bendir á að lítið æti sé fyrir seiði þar sem engar lirfur þrífist í botnfrosnum jarðvegi.

Morgunblaðið/Ásdís BÚRFOSS er kraftmikill um þessar mundir eftir tjónið á aðrennslispípunni sem vatni er veitt eftir frá Árbæjarlóni til gömlu Rafstöðvarinnar í Elliðaárdal. Búast má við að viðgerðum á pípunni verði ekki lokið fyrr en á næsta ári.