ÞEGAR kosið var til þings í Bretlandi fyrir einu og hálfu ári heyrðust þær raddir að Verkamannaflokkur Tonys Blairs væri búinn að kokgleypa stefnumál Íhaldsflokks Margrétar Thatchers og að Blair væri í raun verðugri arftaki þeirrar arfleifðar en eftirmaður Margrétar á stóli forsætisráðherra, John Major.
Gott og vont í hagfræði og pólitík

Einkavæðing og einkarekstur í stað ríkisrekstrar er hins vegar annað en það, segir Magnús Árni Magnússon , að afhenda örfáum útvöldum fjöregg íslensks efnahagslífs endurgjaldslaust.

ÞEGAR kosið var til þings í Bretlandi fyrir einu og hálfu ári heyrðust þær raddir að Verkamannaflokkur Tonys Blairs væri búinn að kokgleypa stefnumál Íhaldsflokks Margrétar Thatchers og að Blair væri í raun verðugri arftaki þeirrar arfleifðar en eftirmaður Margrétar á stóli forsætisráðherra, John Major.

Það er að vissu leyti rétt að þegar hlustað er á málflutning höfuðandstæðinga breskra stjórnmála virðist ekki ýkja mikill ágreiningur á milli þeirra í hagfræðilegu tilliti. Þeir eru nú báðir málsvarar hins frjálsa markaðskerfis og viðurkenna að atvinnutækin séu betur komin í höndum borgaranna en ríkisins. Þó er einn eðlismunur á. Munurinn liggur í góðri og vondri pólitík og til að sjá hann kristallast er rétt að líta hingað heim.

Sjálfstæðisflokkurinn undir forystu Davíðs Oddssonar hefur löngum litið á breska Íhaldsflokkinn sem sína fyrirmynd. Hann talar um kosti hins frjálsa markaðskerfis, en trúir í raun ekki á það þegar hætta er á að það komi gæludýrum hans illa. Þetta má sjá dæmi um þegar vernda þarf einokunar- og yfirburðastöðu þeirra fyrirtækja sem gárungarnir hafa kennt við kolkrabba. Þá er varðhundum forréttindastéttarinnar att út á foraðið af sjálfskipuðum málsvörum "frelsisins".

Það sama á við þegar stinga á undan sameiginlegum auðlindum landsmanna og setja þær í vasa hinna útvöldu. Þá stendur Sjálfstæðisflokkurinn í fylkingarbrjósti og notar kennisetningar hagfræðinnar til að slá ryki í augu fólks. Einkavæðing og einkarekstur í stað ríkisrekstrar er hins vegar annað en það að afhenda örfáum útvöldum fjöregg íslensks efnahagslífs endurgjaldslaust. Auðvitað á ríkið ekki að standa í útgerð, en íslenska ríkið getur selt hæstbjóðanda aðgang að auðlindinni, í stað þess að láta kvótaeigendum það hlutverk eftir. Ég fullyrði að þeim peningum sem þar færu í ríkissjóð væri betur varið í aukin framlög til tölvunarfræðikennslu við Háskóla Íslands, eða í bætta heilbrigðisþjónustu, en í lúxuslifnað kvótaaðalsins.

Það er misbeiting valdsins í þágu hinna fáu sem einkennir íhaldsmenn allra landa. Þeir nota vald sitt til að koma gæludýrum sínum í yfirburðastöðu á markaði. Ef samfélagsaðstæður leyfðu að forréttindastéttirnar færu um rænandi og ruplandi, þá væri íhaldsmönnum svosem slétt sama. Það þurfti byltingu í Frakklandi til að ýta þeirri fornu auðsöfnunaraðferð til hliðar.

Í augum nútímalegra jafnaðarmanna á að nýta kosti markaðarins í þágu heildarinnar. Sú réttláta krafa er sett fram að þeir sem afla meira leggi að sama skapi meira fram til þess að gera samfélagið, sem við byggjum öll, manneskjulegra og betra.

Í raun eru pólitík og hagfræði sitt hvað, þótt hægrimenn hafi hin síðari ár viljað skreyta sig með sigrum nútímalegrar hagfræði sem byggist á frjálsu markaðskerfi ­ verslunarfrelsi. Verslunarfrelsi kemur pólitík hægrimanna ekki við. Þeir hafa ekki alltaf verið málsvarar verslunarfrelsis og eru það ekki enn nema það raski hvergi hagsmunum forréttindastéttarinnar.

Meint afstaða íhaldsmanna til verslunarfrelsis á sér sögulegar forsendur. Af ótta við ógnina sem stóð af verkalýðsbaráttu og sósíalisma á fyrrihluta aldarinnar sömdu hinar ólíku fylkingar íhalds og frjálslyndis frið. Íhaldssamir stóreignamenn óttuðust völd sín og aðstöðu í samfélaginu og frjálslyndir sáu ógnina sem markaðsbúskapnum stafaði af dýnamík þeirrar hreyfingar sem trúði ekki á lausnir hans.

Nú er svo komið að jafnvel útverðir hinnar gömlu sósíalísku hugsunar hafa tekið markaðsbúskapinn í sátt og jafnaðarmenn á Vesturlöndum hafa almennt gert sér grein fyrir kostum hans til að stækka þá köku sem þjóðirnar hafa til skiptanna. Þess vegna tala menn um að hinar gömlu skilgreiningar til hægri og vinstri eigi ekki lengur við. Frjálslyndir íslenskir borgarar (og þá á ég ekki við þessa sem keppast við að stofna hvern stjórnmálaflokkinn af öðrum þessa dagana) hafa of lengi látið hafa sig að ginningarfífli íhaldsmanna með því að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Hann stendur þegar allt kemur til alls ekki fyrir þau gildi um jöfn tækifæri og frelsi í viðskiptum sem hin frjálslynda borgarastétt trúir á.

Það er höfuðverkefni hinnar sameinuðu hreyfingar íslenskra jafnaðarmanna að vinna traust þessa hóps, sem hingað til hefur ranglega talið að málsvara sína væri að finna í lögfræðingastóðinu sem íslensk forréttindastétt hefur komið í ráðherrastóla. Á tyllidögum tala þeir eins og þeir standi fyrir góða hagfræði, þegar þeir standa í raun ekki fyrir neitt annað en vonda pólitík.

Höfundur er 15. alþingismaður Reykvíkinga.

Magnús Árni Magnússon