Neitar að flytja herliðið
á brott á tilsettum tíma
Erez. Reuters.
BILL Clinton, forseta Bandaríkjanna, tókst ekki að telja Benjamin
Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, á að standa á tilsettum tíma við samninginn um brottflutning ísraelskra hersveita frá Vesturbakkanum á fundi þeirra með Yasser Arafat, leiðtoga Palestínumanna, í gær. Palestínumenn sökuðu Netanyahu um að hafa spillt fyrir tilraunum Clintons til að bjarga Wye- samningnum svokallaða, sem kveður á um að Ísraelar flytji herlið sitt frá 13% Vesturbakkans í þremur áföngum gegn því að Palestínumenn skeri upp herör gegn hermdarverkum.
"Þeir komu með það eitt að markmiði að spilla leiðtogafundinum og tækifærinu til að bjarga friðarumleitununum og gera Wye-samninginn framkvæmanlegan," sagði palestínski samningamaðurinn Nabil Shaath.
Clinton ræddi við Netanyahu og Arafat í tvær klukkustundir við landamæri Ísraels og Gaza-svæðisins og sagði að þeir hefðu samþykkt að leita leiða til að leysa deilur þeirra og flýta lokaviðræðum Ísraela og Palestínumanna um varanlegan frið.
Palestínumenn sakaðir um samningsbrot
Samkvæmt Wye-samningnum á öðrum áfanga brottflutnings ísraelskra hermanna frá Vesturbakkanum að ljúka á föstudaginn kemur en ekkert benti til þess í gær að Netanyahu hygðist virða það ákvæði.
Netanyahu áréttaði að Ísraelar myndu ekki láta fleiri landsvæði af hendi fyrr en Palestínumenn stæðu að fullu við skuldbindingar sínar. Hann lýsti því ennfremur yfir að hann myndi ekki falla frá skilyrðum sínum fyrir því að palestínskir fangar yrðu látnir lausir.
Forsætisráðuneytið í Ísrael birti síðar um daginn skrá yfir meint samningsbrot og vanefndir Palestínumanna, sem Netanyahu var sagður hafa afhent Clinton og Arafat. Í skjalinu voru lagðar fram kröfur um að Palestínumenn féllu frá því að lýsa yfir stofnun sjálfstæðs ríkis, samþykktu skilyrði Ísraela fyrir því að láta palestínska fanga lausa, legðu hald á ólögleg vopn, fækkuðu palestínskum lögreglumönnum, hindruðu að hvatt væri til árása á Ísraela og skæru upp herör gegn hermdarverkum.
Shaath sagði skrána til marks um að Netanyahu væri að leita að tylliástæðum til að fresta framkvæmd Wye-samningsins.
Netanyahu íhugar þingrof
Ráðgert er að þing Ísraels greiði atkvæði á mánudaginn kemur um tillögur þess efnis að þingið lýsi yfir vantrausti á stjórn Netanyahus og að boðað verði til kosninga innan tveggja mánaða. David Bar-Illan, fjölmiðlafulltrúi Netanyahus, sagði í gær að forsætisráðherrann myndi líklega ákveða bráðlega hvort rjúfa ætti þing og boða til kosninga. Ummæli hans voru túlkuð sem skýrasta vísbendingin til þessa um að Netanyahu teldi útséð um að hægt yrði að bjarga stjórninni, sem hefur riðað til falls vegna óeiningar um Wye-samninginn.
Talsmaður Netanyahus staðfesti í gærkvöldi að Yaacov Neeman, fjármálaráðherra Ísraels, hefði ákveðið að segja af sér. Ekki var greint frá ástæðu afsagnarinnar.
Neeman bauðst til að láta af embættinu fyrr í mánuðinum ef það yrði til þess að Netanyahu gæti myndað stjórn með Verkamannaflokknum. Tilraunir Netanyahus til að fá David Levy, fyrrverandi utanríkisráðherra, til að ganga aftur í stjórnina fóru út um þúfur í vikunni sem leið þegar forsætisráðherrann hafnaði kröfu Levys um að hann yrði skipaður fjármálaráðherra.
Reuters BILL Clinton Bandaríkjaforseti kveikti á stóru jólatré á Manger-torginu í Betlehem áður en hann hélt aftur til Bandaríkjanna í gær. Clinton og dóttir hans, Chelsea, skreyta hér jólatréð.