TÍMAMÓTA var minnst með hátíðardagskrá á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri í gær, en þá voru nákvæmlega 45 ár liðin frá því starfsemi sjúkrahússins var flutt í fyrsta hluta Fjórðungssjúkrahússins. Einnig eru liðin 125 ár frá því rekstur sjúkrahúss hófst á Akureyri.
Tímamóta minnst á Fjórðungs- sjúkrahúsinu á Akureyri
25 milljónir tiltækjakaupa
TÍMAMÓTA var minnst með hátíðardagskrá á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri í gær, en þá voru nákvæmlega 45 ár liðin frá því starfsemi sjúkrahússins var flutt í fyrsta hluta Fjórðungssjúkrahússins. Einnig eru liðin 125 ár frá því rekstur sjúkrahúss hófst á Akureyri. Af þessu tilefni ákvað Ingibjörg Pálmadóttir heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra að veita 25 milljónum króna til tækjakaupa sjúkrahússins, sem viðurkenningarvott til starfsmanna og stjórnenda FSA fyrir farsælt starf og þjónustu í þágu almennings nyrðra. Með þessu framlagi vildi ráðherrann undirstrika mikilvægi Fjórðungssjúkrahússins fyrir Norðlendinga sérstaklega.
Magnús Stefánsson yfirlæknir á barnadeild FSA og formaður læknaráðs fór yfir sögu sjúkrahússrekstrar á Akureyri, en upphafið má rekja til þess er Fredrik Gudmann kaupmaður gaf Akureyrarbæ húsið Aðalstræti 14 til að nota sem sjúkrahús, en það hefur upp frá því verið nefnt "Gudmanns Minde". Þar voru sjúkrastofur með átta rúmum á efri hæð og íbúð læknis á þeirri neðri. Húsið er nú í eigu Læknafélags Akureyrar og Norðurlandsdeildar Hjúkrunarfélags Íslands. Sjúkrahúsið var flutt að Spítalavegi 1899, en það var svo 15. desember árið 1953 sem flutt var í nýja þriggja hæða byggingu á Eyrarlandstúni og tók þá til starfa fyrsta deildaskipta sjúkrahúsið utan höfuðborgarinnar og rúmaði það alls 220 sjúklinga. Húsið er enn í notkun en við það hefur mikið verið byggt.
Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri er nú stærsti vinnustaðurinn í bænum með hátt á sjöunda hundrað starfsmenn á launaskrá og voru legudagar þar yfir 61 þúsund talsins á síðasta ári.
Nauðsynlegt að ljúka við nýbyggingu
Þorvaldur Ingvarsson lækningaforstjóri á FSA ræddi um framtíð sjúkrahússins og taldi hana bjarta, en nokkur kreppa hefði verið undanfarin ár, þar sem fjármunir hefðu verið naumt skammtaðir. Sagði hann nauðsynlegt að lokið yrði við nýbyggingu sjúkrahússins á næstu þremur til fjórum árum og að sjúkrahúsið yrði hátæknisjúkrahús sem gæti boðið upp á sömu þjónustu og önnur slík og þar væri innt af hendi kennsluskylda við Háskólann á Akureyri.
Valgerður Sverrisdóttir þingmaður flutti kveðju heilbrigðisráðherra sem ekki átti heimangengt, en í máli hennar kom m.a. fram að það væri eindreginn vilji fyrir því að ljúka við nýbygginguna.
Morgunblaðið/Kristján STARFSFÓLK og velunnarar Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri minntust þess í gær að liðin voru 45 ár frá því flutt var í fyrsta hluta byggingar þess og að 125 ár eru liðin frá því rekstur sjúkrahúss hófst á Akureyri. Fremst á myndinni má sjá þá Bjarna Hjarðar formann stjórnar FSA og Vigni Sveinsson aðstoðarframkvæmdastjóra.