POUL Nyrup Rasmussen forsætisráðherra hefur undanfarið ítrekað beðist afsökunar á á því hvernig hann stóð að breytingum á eftirlaunakerfinu við fjárlagagerðina fyrir þremur vikum. Margir benda hins vegar á að hann hafi beðið í þrjár vikur með að biðjast afsökunar og þá fyrst eftir mikinn þrýsting og fylgishrun jafnaðarmanna í skoðanakönnunum.

Nyrup stendur

höllum fæti Það hefur gustað um Poul Nyrup Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, undanfarnar vikur vegna breytinga sem hann hefur gert á eftirlaunakerfinu danska, að sögn Sigrúnar Davíðsdóttur . Nú er svo komið að um helmingur jafnaðarmanna vill að Nyrup fari frá.

POUL Nyrup Rasmussen forsætisráðherra hefur undanfarið ítrekað beðist afsökunar á á því hvernig hann stóð að breytingum á eftirlaunakerfinu við fjárlagagerðina fyrir þremur vikum. Margir benda hins vegar á að hann hafi beðið í þrjár vikur með að biðjast afsökunar og þá fyrst eftir mikinn þrýsting og fylgishrun jafnaðarmanna í skoðanakönnunum. Spurningin er hvort nóg er að gert, því skoðanakönnun er kynnt var í danska útvarpinu í gær bendir til að rúmlega helmingur kjósenda álíti að Nyrup eigi að fara frá og um helmingur jafnaðarmanna er sama sinnis. Trúnaðarbresturinn er kaldhæðnislegur fyrir Nyrup, sem kom Svend Auken fyrrum flokksformanni frá þar sem Auken þótti hvorki traustvekjandi né trúverðugur. Vangaveltur eru uppi um að samstarfsflokkur Jafnaðarmannaflokksins, Róttæki vinstriflokkurinn, sé farinn að missa trú á að Nyrup hafi nægilegan styrk til að gera nauðsynlegar breytingar á velferðarkerfinu. Svo lengi sem Jafnaðarmannaflokkurinn er í stjórn erum við trygging fyrir því að biðeftirlaunin verði ekki skert," sagði Nyrup fyrir kosningarnar í mars. Ég vil gjarnan draga úr því óöryggi sem breiðst hefur út og undirstrika að það verður hvorki hreyft við biðeftirlaunum, eftirlaunum né barnabótum. Kjósendur hafa ekki kosið okkur til að reka hægristefnu," sagði Nyrup í sumar. Það eru þessi orð og mörg önnur hliðstæð sem hafa orðið til að átta af hverjum tíu Dönum álíta Nyrup hafa gengið á bak orða sinna. Ég skil vel að aðeins er hægt að skilja orð mín í hita kosningabardagans um að ekki yrði hreyft við biðeftirlaununum sem svo að engar breytingar yrðu á. Þetta þykir mér mjög miður," sagði Nyrup svo um helgina. Hann segist þó ekki biðjast afsökunar á sjálfum breytingunum heldur aðeins hversu klaufalega hefði tekist til við að koma þeim í kring og hversu illa þær hefðu verið kynntar. Á þessum þremur vikum ríkti nánast byltingarástand í flokknum og verkalýðshreyfingunni, meðal annars af því að Nyrup og aðrir ráðherrar hömruðu á því í að allt væri þetta að kenna misskilningi fjölmiðla og rangtúlkun þeirra á aðgerðunum. Úr 37,4 prósentum í 19,1 prósenta fylgi Tölur um fylgi tala sínu máli um áhrif þessa upphlaups. Þegar Nyrup sigraði Auken í formannskjöri vorið 1992 hafði Auken byggt upp 37,4 prósenta fylgi, sem var komið niður í 19,1 prósent samkvæmt Gallupkönnun í vikunni. Ef fylgið fer ekki brátt upp á við gæti að mati sérfræðinga hlaupið örvænting í flokksforystuna og Nyrup orðið að gjalda þess. En aðrir þættir gætu einnig haft áhrif. Eftir góða efnahagsþróun undanfarin ár ríkir góðæri í Danmörku, en teikn eru á lofti um að hugsanlega geti aftur farið að bera á samdrætti og atvinnuleysi. Ef þetta bættist við vantrú á Nyrup eftir biðlaunaslaginn myndi það gera hann enn valtari í sessi innan flokksins. Forysta Róttæka vinstriflokksins hefur staðið eins og klettur við hlið Nyrups í orrahríðinni undanfarið. Hins vegar hefur kvisast út að einhverjir hinna róttæku séu farnir að missa trú á að jafnaðarmenn séu nógu styrkir og áræðnir til að hafa forystu um nauðsynlegan uppskurð velferðarkerfisins, sem hinir róttæku leggja ofurkapp á. Aðrir benda á að með svo illa stæðan forsætisráðherra sé einmitt lag fyrir Róttæka flokkinn að koma hugmyndum sínum að. Tvær erfiðar raunir blasa við Nyrup á næsta ári. Annars vegar samningar við opinbera starfsmenn, hins vegar kosningar til Evrópuþingsins, sem sjaldnast vekja mikla athygli, en sem verða engu að síður mikilvæg vísbending um stöðu flokkanna. Það hefur einnig verið rifjað upp að það var Róttæki flokkurinn, sem í raun olli falli hægristjórnarinnar 1993 með því að fara yfir á jafnaðarmannavænginn í umrótinu vegna tamílamálsins og koma þeim í stjórn. Þó hinir róttæku hafi á þeim tíma talað um að þáverandi stjórn ætti að sitja sem fastast, gripu þeir annað tækifæri til stjórnarmyndunar um leið og það gafst. Með vinsældum flokksins Venstre og Venstreleiðtogans Anders Fogh Rasmussen, sem í mörgu er sammála velferðarhugmyndum Róttæka flokksins, gæti myndast nýr kostur á hægrivængnum. Reuters

POUL Nyrup Rasmussen í þungum þönkum.