Stafrænar sendingar
kalla á breytingar
Á FUNDI menningarmálaráðherra
og útvarpsstjóra Norðurlandanna í Kaupmannahöfn í síðustu viku var fjallað um stöðu ríkisútvarpa á Norðurlöndum. Björn Bjarnason menntamálaráðherra segir að við verðum að taka mið af þeim breytingum sem eigi sér stað á útvarpsstarfsemi á Evrópska efnahagssvæðinu. Hann bendir á að starfsumhverfi í útvarpsrekstri eigi eftir að breytast mjög mikið á næstu árum þegar stafrænar útsendingar hefjist.
Á síðustu árum hefur mikið verið fjallað um framtíð ljósvakamiðla í eigu ríkisins á Norðurlöndunum. Víða hafa verið gerðar breytingar á rekstrarfyrirkomulaginu til að mæta nýjum kröfum. Síðast árið 1996 var norska ríkisútvarpinu breytt í hlutafélag í eigu ríkisins, en markmiðið með því var að auka sjálfstæði fyrirtækisins og gefa því m.a. tækifæri til að taka þátt í rekstri dótturfyrirtækja. Rekstrarfyrirkomulagi Ríkisútvarpsins á Íslandi hefur ekki verið breytt.
"Umræður á fundinum snerust m.a. um stöðu þessara fyrirtækja. Það er alveg augljóst að á vettvangi Evrópusambandsins eru þungar kröfur frá öflugum einkafyrirtækjum í fjölmiðlarekstri, sem telja að ríkisfyrirtækin njóti sérréttinda og það þurfi að þrengja þessi réttindi og skilgreina þau með nýjum hætti.
Menningarmálaráðherrar Evrópusambandsríkjanna gáfu út yfirlýsingar um þetta 17. nóvember sl. og lýstu þar afstöðu sinni til þessara fyrirtækja sem eiga að þjóna almannahagsmunum. Það er alveg ljóst að útvarpsstjórarnir á Norðurlöndunum, sem eru með ríkisútvörpin þar, hafa áhyggjur af stöðu sinna fyrirtækja og hvernig þau komi til með að þróast í ljósi þeirra breytinga sem verða. Breytingarnar eru bæði varðandi aukna samkeppni, auknar kröfur um að ríkið sé ekki með puttana í of mörgum hlutum, og einnig um breytingar á útsendingum með stafrænu byltingunni sem er á næsta leiti, en við það fjölgar rásunum svo mikið að starfsumhverfið gjörbreytist," sagði Björn.
Frumvarp um útvarp er hjá þingflokkum
Menntamálaráðherra hefur lagt fyrir ríkisstjórn og þingflokka stjórnarflokkanna frumvarp um útvarpsstarfsemi almennt. Þar er útvarpsstöðvum settur almennur rammi til að starfa eftir. Frumvarpið tekur mið af þeim tilskipunum sem samþykktar hafa verið í Evrópusambandinu um útvarpsstarfsemi. Björn sagði að umræður í Kaupmannahöfn staðfestu að taka þyrfti á starfsemi Ríkisútvarpsins sérstaklega. Ekki síst yrði að taka mið af þeirri þróun sem hefði átt sér stað í Evrópu þannig að tryggt yrði að starfsemi Ríkisútvarpsins yrði í samræmi við þær leikreglur sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu. Fjórfrelsið sem fælist í EES-samningnum næði til útvarpsrekstrar ekki síður en annarrar atvinnustarfsemi. Ríkisstjórnin væri þeirrar skoðunar að áfram yrði starfrækt hér Ríkisútvarp og ekki mætti fjara undan því.
Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri sagði að þetta hefði verið gagnlegur fundur. "Þar var gerð grein fyrir stöðu ríkisútvarps- og sjónvarpsstöðvanna í ljósi nýrrar samkeppni. Lögð var áhersla á að það þyrfti að laga löggjöf landanna að þörfum viðkomandi þjóðlanda fyrir sjónvarps- og útvarpsefni sem væri á þjóðlegum menningarlegum forsendum viðkomandi landa. Samkeppnin frá öðrum menningarsvæðum er að verða mjög mikil og það er mikil alþjóðavæðing í framleiðslu og dreifingu á sjónvarpsefni. Menn voru sammála um að rétt viðbrögð við þessu væru að treysta enn betur í sessi þessi fyrirtæki í löndunum sjálfum og að þau hefðu ákveðnum skyldum að gegna varðandi þjóðlegt menningarefni."